Handbolti

Síðasti séns í kvöld að sjá strákana okkar fyrir EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson snýr aftur í Krikann.
Aron Pálmarsson snýr aftur í Krikann. vísir/eva björk

Strákarnir okkar í karlalandsliðinu í handbolta spila síðasta heimaleikinn sinn fyrir EM 2016 í kvöld í Kaplakrika á móti Portúgal.

Leikurinn hefst klukkan 19.30 og má kaupa miða hér. Á morgun mætast liðin aftur en þá spilar B-liðið á meðan A-liðið ferðast til Þýskalands þar sem það spilar síðustu vináttuleikina fyrir Evrópumótið í Póllandi.

Sjá einnig: Svona komast handboltastrákarnir okkar á ÓL í Ríó

Aron Pálmarsson, stórskytta íslenska liðsins, spilar 100. landsleikinn í kvöld á sínum gamla heimavelli, en þetta verður jafnframt fyrsti leikur Arons með landsliðinu í Kaplakrika, hans gamla heimavelli.

Íslenska liðið hefur aðeins einu sinni spilað í Krikanum síðan Aron kom inn í landsliðið en það var á móti Argentínu 2012 þegar hann var ekki með.

Ísland mætti Portúgal síðast í þremur vináttuleikjum í júní í fyrra þar sem liðið var á flakki um landið og spilaði á Ísafirði, í Ólafsvík og í Austurbergi. Ísland vann tvo af leikjunum þremur en tapaði leiknum í Ólafsvík með fimm marka mun.

Síðast þegar Ísland mætti Portúgal í síðasta heimaleik fyrir EM stóðu strákarnir okkar uppi með bronsverðlaun á Evrópumóti.

Ísland mætti Portúgal og vann með tíu mörkum, 37-27, í Laugardalshöll 13. janúar 2010. Það spilaði svo tvo leiki á æfingamóti í Frakklandi áður en haldið var til Austurríki þar sem íslenska liðið náði í brons eftir sigur á Póllandi í leiknum um þriðja æstið.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira