Handbolti

Svona komast handboltastrákarnir okkar á ÓL í Ríó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísland vann silfur á ÓL í Peking 2008.
Ísland vann silfur á ÓL í Peking 2008. Vísir/AFP
Íslenska karlalandsliðið í handbolta byrjar árið 2016 á EM í Póllandi en berst um leið fyrir sæti á öðru ­stórmóti á árinu, Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst. Fréttablaðið skoðar hvernig Ísland kemst þangað.

Það eru liðin sextán ár síðan íslenska handboltalandsliðið missti síðast af Ólympíuleikum og það þarf ýmislegt að ganga upp hjá strákunum okkar á EM ætli sagan frá 2000 ekki að endurtaka sig.

Átta sæti eru enn laus í handboltakeppni karla á Ólympíuleikunum í Ríó og Evrópuþjóðir eiga möguleika á sjö þeirra. Evrópumeistarinn fær sæti og sex sæti eru í boði í gegnum forkeppni í apríl.

Íslenska landsliðið gæti því komist beint á Ólympíuleikana á EM í Póllandi með því að vinna Evrópu­meistaratitilinn eða komast í úrslitaleik á móti heimsmeisturum Frakka. Raunhæfari möguleiki er að komast í forkeppnina með því að vera önnur tveggja efstu þjóða af þeim sem náðu ekki að tryggja sér sætið í gegnum HM í Katar í fyrra.

Sjö þjóðir hafa þegar komist í forkeppnina en Ísland verður að vera í 1. eða 2. sæti meðal hinna þjóðanna. Ísland er í B-riðli og fer í milliriðil eitt komist liðið upp úr riðlinum. Þjóðir í sömu stöðu og Ísland eru Makedónía, Serbía, Hvíta-Rússland og Noregur.

Makedóníumenn standa óvenju vel að vígi því um leið og einhver þeirra þjóða, sem hafa þegar tryggt sér sæti í forkeppninni, verður Evrópumeistari þá hoppa Makedóníumenn inn í forkeppnina sem níunda besta þjóðin á HM í Katar 2015. Í hinum milliriðlinum eru það Svíþjóð, Ungverjaland, Rússland og Svartfjallaland sem þurfa að fara sömu leið og Ísland til að komast í forkeppnina.

Íslenska landsliðið þarf að komast upp úr riðlinum og helst með tvö stig eða fleiri ætli liðið sér í forkeppnina. Úrslitin í öðrum riðlum ræður miklu um framhaldið því aðrar þjóðir í sömu stöðu gætu vissulega setið eftir í sínum riðli eða farið án stiga inn í milliriðilinn. Allt slíkt bætir stöðu íslensku strákanna og það gætu orðið margir „aðrir“ leikir undir smásjá íslensku þjóðarinnar enda fullt af þjóðum sem mega ekki ná lengra en Ísland.

Hér fyrir ofan má sjá stöðu mála í dag og hvaða leið liggur fyrir íslenska landsliðinu nú þegar rúm vika er í Evrópumótið í Póllandi.

 Margir reynsluboltar liðsins hafa þegar verið með á þrennum Ólympíuleikum og unnu flestir silfurverðlaun á leikunum í Peking 2008. Þeir hinir sömu vita því hvað er í boði.

Evrópumótið snýst þó um núið og að standa sig á þessu stórmóti. Bónusinn er þó af glæsilegri gerðinni enda eru það aðeins tólf þjóðir sem fá að taka þátt í handboltakeppni Ólympíuleikanna í Ríó. Leiðin þangað er vissulega erfið en ekki ófær.

Grafík/Silja Ástþórsdóttir

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×