Erlent

Setur staðgöngumæðrun undir sama hatt og kynferðisbrot

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Innanríkisráðherra Ítalíu er ekki hrifinn af því að fólk geti nýtt sér staðgöngumæðrun.
Innanríkisráðherra Ítalíu er ekki hrifinn af því að fólk geti nýtt sér staðgöngumæðrun. Vísir/Getty
Angelino Alfano, innanríkisráðherra Ítalíu, hefur valdið usla í heimalandi sínu með ummælum sínum um staðgöngumæðrun en hann vill að komið verði fram við þá sem nýta sér staðgöngumæðrun á sama hátt og komið er fram við kynferðisbrotamenn.

„Staðgöngumæðrun er andstyggilegasta og ólöglegasta form verslunar sem maðurinn hefur fundið upp á,“ sagði Alfano í viðtali við ítalskt dagblað.

Alfano er á móti auknum réttindum samkynhneigðra og ógiftum pörum en Ítalía er eina stóra vestræna ríkið sem neitar samkynhneigðum pörum um réttindi á borð við það að verða foreldrar.

Staðgöngumæðrun er ólögleg í Ítalíu og nemur refsingin allt að tveggja ára fangelsi. Grátt svæði hefur þó myndast á þessu sviði enda er fólki sem sækir í staðgöngumæðrun í öðrum löndum og kemur svo með barnið heim til Ítalíu ekki refsað.

Alfano fer fyrir litlum flokki í samsteypustjórn Ítalíu og er flokkurinn alfarið á móti staðgöngumæðrun.

„Við viljum að staðgöngumæðrun verði glæpur, alveg eins og kynferðisbrot,“ sagði Alfano .

Ekki er víst hvernig harðlínustefna Alfano leggist í Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, sem hefur lofað samkynhneigðum á Ítalíu auknum réttindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×