Innlent

Skolp rennur út í sjó

Sveinn Arnarsson skrifar
Langan tíma gæti tekið að ná tökum á saurgerlamengun í Eyjafirði, að mati Norðurorku.
Langan tíma gæti tekið að ná tökum á saurgerlamengun í Eyjafirði, að mati Norðurorku. vísir/pjetur
Mörg ár gæti tekið að laga fráveitukerfi Akureyringa svo mengun af völdum saurgerla haldist innan viðmiðunarmarka í sjó við strendur bæjarins. Nýleg sýnataka heilbrigðiseftirlitsins sýndi of háan styrk saurkólígerla og er það í þriðja sinn sem styrkurinn er yfir viðmiðunarmörkum.

Sýni sem tekin voru fyrir helgi sýna að magn saurgerla er innan viðmiðunarmarka við Pollinn á Akureyri en styrkurinn mældist tífalt yfir mörkum norðan byggðarinnar. Í júní mældust mest 79.000 saurgerlar í 100 millilítrum af sjó en viðmiðið er 100 saurgerlar í því magni af sjó.

BAldur Dýrfjörð
Baldur Dýrfjörð, upplýsingafulltrúi Norðurorku sem heldur utan um fráveitukerfi á Akureyri, segir lagfæringar á kerfinu geta tekið nokkur ár. Kerfið sé tvöfalt eins og víðast hvar annars staðar í stærri bæjarfélögum.

„Einhvers staðar er svokölluð slysatenging, sem lýsir sér í því að pípulögnum frá húsum bæjarins er víxlað í fráveituna og því fer skolp með yfirborðsvatni og á greiða leið í sjó fram,“ segir Baldur.

Alfreð Schiöth, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra, segir það geta tekið nokkur ár að komast að því hvar gloppur eru í kerfinu og laga mögulegar slysatengingar.

Norðurorka vinnur nú að því að komast til botns í því hvar þessar slysatengingar eru.

„Eins og gefur að skilja gæti þetta tekið langan tíma. Það tók til dæmis nokkur ár að komast til botns í svipuðu vandamáli við Fossvoginn á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum á síðustu áratugum unnið gott starf í að koma skólpmálum bæjarins í gott horf og munum halda þeirri vinnu áfram,“ segir Baldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×