Innlent

Fékk bætur vegna eineltis Hjálmars

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Sálfræðingar komust að þeirri niðurstöðu að starfsmaðurinn hefði verið lagður í einelti af Hjálmari sem hefði haft mikil áhrif á hann.
Sálfræðingar komust að þeirri niðurstöðu að starfsmaðurinn hefði verið lagður í einelti af Hjálmari sem hefði haft mikil áhrif á hann. vísir/stefán
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs, gerðist sekur um einelti gagnvart fyrrverandi starfsmanni hjá Keili. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var af sálfræðingum vegna málsins.



Hjálmar Árnason
Fréttablaðið sagði frá því í nóvember að starfsmaðurinn teldi sig hafa orðið fyrir einelti í marga mánuði sem hófst eftir að starfsmaðurinn fór fram á leiðréttingu launakjara hjá félaginu fyrir hönd starfsmanna en hann var trúnaðarmaður þeirra.

„Það er búið að afgreiða það mál og ekki meira um það að segja. Ég ætla ekki að tjá mig frekar um málið, þetta eru viðkvæm mál og erfið mál og ég ætla ekki að tjá mig frekar um það,“ segir Hjálmar þegar hann er spurður um málið. 

Sálfræðingar komust að þeirri niðurstöðu að Hjálmar hefði lagt starfsmanninn í einelti. Það hefði hann gert með því að „bregðast með óviðeigandi hætti“ við framgöngu starfsmannsins sem trúnaðarmanns starfsmanna í launadeilunni og í kjölfarið breyta framkomu sinni og viðmóti í garð starfsmannsins á þann hátt að hann upplifði hundsun.

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að „með viðbrögðum sínum hafi hann vanvirt hlutverk starfsmannsins sem trúnaðarmanns og eigið hlutverk sem stjórnanda“.

Samkvæmt samkomulagi sem gert var við manninn átti hann að fá greidd full laun átta mánuði frá því hann hætti störfum hjá fyrirtækinu vegna eineltisins, miskabætur upp á 600 þúsund „til að mæta vanlíðan sinni og skaða vegna málsins“, eins og það er orðað, auk þess sem lögfræðikostnaður hans var borgaður. Upphæðin sem maðurinn fékk vegna starfslokanna nam ekki þeim launum sem hann hefði átt að fá. Lögfræðingur mannsins hefur ítrekað við félagið að standa við samkomulagið. Eftir niðurstöðuna bað Hjálmar starfsmanninn skriflega afsökunar á þeim óþægindum og vanlíðan sem hann hefði valdið honum. „Ég geri mér betur grein fyrir hvað þetta hefur verið þér erfitt þegar mér eru kynntar niðurstöður fagaðila þar sem fram kemur að með framferði mínu hafi átt sér stað einelti í þinn garð,“ sagði Hjálmar í bréfinu. Hann sagðist hafa lært af þessu og að slík viðbrögð hans sem stjórnanda endurtækju sig ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×