Viðskipti innlent

Þorvaldur Lúðvík: „Málinu verður áfrýjað“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorvaldur Lúðvík var eini sakborningurinn sem var viðstaddur dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Þorvaldur Lúðvík var eini sakborningurinn sem var viðstaddur dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Vísir/Anton Brink
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Saga Capital sem dæmdur var í átján mánaða fangelsi í Stím-málinu í dag, segir að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar. Auk hans fékk Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, fimm ára dóm og Jóhannes Baldursson, sem gegndi stöðu framkvæmdastjóra markaðsviðskipta hjá Glitni, hlaut tveggja ára dóm.

Þorvaldur Lúðvík var eini sakborningurinn sem var viðstaddur dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hans dómur var lesinn síðastur og var öllum sem staddir voru í salnum ljóst að honum var brugðið við dóminn. Hann gaf ekki kost á viðtali eftir dómsuppsögu en hefur nú tjáð sig á Facebook.

Stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, þar sem Þorvaldur gegndi stöðu framkvæmdastjóra, hefur þegar lýst yfir stuðningi við Þorvald Lúðvík í kjölfar dómsins en hann telur sjálfur að niðurstaðan sé ekki í samræmi við málavexti og gögn málsins.

„Ég er saklaus af því sem mér hefur verið gefið að sök og hef í hvívetna fylgt lögum og mun gera eftirleiðis,“ segir Þorvaldur Lúðvík. „Málinu verður áfrýjað af minni hálfu.“

Óttar Pálsson, verjandi Lárusar Welding, segir í samtali við fréttastofu að engin ákvörðun hafi verið tekin um áfrýjun. Fastlega má þó búast við því að Lárus og Jóhannes áfrýi dómum sínum til Hæstaréttar sé litið til fyrri dóma sem fallið hafa í héraði í hrunmálum.


Tengdar fréttir

Stjórn AFE ber enn traust til Þorvalds

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, núverandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélasgs Eyjafjarðar, var dæmdur til átján mánaða fangelsisvistar í Héraðsdómi Reykjvíkur í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×