Innlent

Karl Garðars: „Hreinlega óábyrgt“ að skoða ekki að auka landamæraeftirlit

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Karl kallaði eftir upplýsingum um hvernig raunverulegu eftirliti í Keflavík sé háttað.
Karl kallaði eftir upplýsingum um hvernig raunverulegu eftirliti í Keflavík sé háttað. Vísir/GVA

Full ástæða er til að skoða hvort herða eigi landamæraeftirlit, að mati Karls Garðarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, á þingi í morgun. 

Karl sagði að í ljósi hryðjuverkanna „hreinlega óábyrgt“ að athuga ekki hvort ekki nauðsynlegt sé að veita auknu fjármagni til þessara mála. „Þannig að öryggi borgaranna sé tryggt.“

Sjá einnig: Ræða Karls fyllti Helga Hrafn ótta

Karl sagðist vera stuðningsmaður Schengen en að samstarfið væri eins og keðja. „Ef einn hlekkurinn brotnar er keðjan ónothæf, og jafnvel ónýt,“ sagði hann. 

„Það að gera ekkert í þeirri trú að útilokað sé að hér gerist nokkuð sem kalli á aukin viðbúnað er ekki bara barnaskapur, heldur beinlínis hættulegur barnaskapur,“ sagði hann og hélt áfram: „Þetta snýr nefnilega ekki um að taka á móti öllum með faðmlagi og kossum.“ 

„Þetta snýst um öryggi þeirra sem búa og dvelja í þessu landi.“

Karl vill að skoðað verði hvort nauðsynlegt sé að herða eftirlit á landamærunum og fjölga þeim sem sinna eftirlitinu. Þá vill hann einnig skoða hvort veita eigi meira fjármagni í eftirlitið.

Hann sagðist vilja vita hvernig raunverulegu eftirliti er háttað í Keflavík. „Hvað eru til dæmis mörg vegabréf borin saman við kerfi Interpol og hversu auðvelt er að fara á fölsuðum vegabréfum í gegn?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×