Sport

Næturlífið kostaði Manziel starfið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Johnny Manziel er enn og aftur búinn að koma sér í vandræði.
Johnny Manziel er enn og aftur búinn að koma sér í vandræði. Vísir/Getty
Johnny Manziel entist aðeins eina viku sem nýr leikstjórnandi Cleveland Browns í NFL-deildinni. Liðið tilkynnti í gær að Manziel, sem er oftast kallaður Johnny Football, yrði nú þriðji leikstjórnandi liðsins.

Ástæðan er myndband sem slúðurmiðillinn TMZ birti af Manziel á skemmtistað í Texas um helgina en Cleveland var þá í fríi.

Manziel skellti sér út á lífið og sást á myndbandinu á skemmtistað með kampavínsflösku í hönd. Það þætti ef til vill ekki alvarlegt nema að fyrr á þessu ári þá fór Manziel í tíu vikna meðferð. Ástæða þess var ekki uppgefin en hegðun hans utan vallar kom honum í mikil vandræði á hans fyrsta ári í deildinni í fyrra.

Manziel hefur sjálfur margsinnis sagt að hann sé breyttur maður og eftir að hafa verið á bekknum stærstan hluta leiktíðarinnar hingað til fékk hann fyrr í mánuðinum tækifæri til að sanna sig sem byrjunarliðsmaður þar sem að Cleveland var hvort eð er búið að tapa sjö leikjum af níu.

Manziel spilaði vel í tapleik gegn Pittsburgh Steelers um miðjan mánuðinn en nú er óvíst að hann muni nokkru sinni aftur fá tækifæri með liðinu.

„Allir í félaginu bera hag hans fyrir brjósti,“ sagið þjálfarinn Mike Pettine í yfirlýsingu. „Þetta eru mér sérstaklega mikil vonbrigði þar sem að hann hefur lagt svo hart að sér.“

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×