Erlent

Túnis-kvartettinn hlýtur Friðarverðlaun Nóbels

Atli Ísleifsson skrifar
Fulltrúar Túnis-kvartettsins svokallaða á fundi 2013.
Fulltrúar Túnis-kvartettsins svokallaða á fundi 2013. Vísir/AFP
Túníski þjóðarsamræðukvartettinn (e. Tunisian National Dialogue Quartet) hlýtur Friðarverðlaun Nóbels í ár.

Kvartettinn hlýtur verðlaunin fyrir framlag sitt til að koma á lýðræði í Túnis í kjölfar byltingarinnar í landinu 2011.

Kvartettinn var myndaður sumarið 2013 þegar mikil hætta var á að lýðræði yrði ekki komið á vegna pólitískra morða og félagslegs óstöðugleika í landinu.

Nóbelsnefndin segir að með myndun þessa vettvangs var komið á friðsamlegu, pólitísku ferli þegar landið var á barmi borgarastyrjaldar. Þannig hafi tekist að koma á stjórnkerfi í landinu sem tryggi mannréttindi allra borgaranna, burtséð frá kyni, stjórnmála- eða trúarskoðunum.

Kvartettinn samanstendur af fjórum mikilvægum stofnunum í landinu – verkalýðshreyfingu landsins (Tunisian General Labour Union (UGTT, Union Générale Tunisienne du Travail)), iðnaðar-, viðskipta og handiðnahreyfingu landsins (Tunisian Confederation of Industry, Trade and Handicrafts (UTICA, Union Tunisienne de l’Industrie, du Commerce et de l’Artisanat)), mannréttindasamtökunum Tunisian Human Rights League (LTDH, La Ligue Tunisienne pour la Défense des Droits de l’Homme)) og sérstöku lögmannaráði landsins (Tunisian Order of Lawyers (Ordre National des Avocats de Tunisie)).

Í rökstuðningi dómnefndar segir jafnframt að verðlaunin séu ætluð sem hvatning til túnísku þjóðarinnar sem hafa þrátt fyrir miklar áskoranir, lagt grunninn að bræðralagi þjóðar, sem nefndin vonast til að verða fyrirmynd annarra ríkja.

Byltingin í Túnis árið 2011 er af mörgum álitin sú bylting „arabíska vorsins“ sem tókst hvað best en í henni var, Zine El Abidine Ben Ali, forseti Túnis til 23 ára, hrakinn frá völdum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×