Körfubolti

Ægir: Glufur í varnarleik turnanna eins og annarra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir eltist hér við serbneskan landsliðsmann.
Ægir eltist hér við serbneskan landsliðsmann. Vísir/daníel
Ægir Þór Steinarsson kom ákveðinn inn í leikinn á móti Spánverjum á Evrópumótinu í körfubolta í Berlín í gær en hann skoraði fjögur stig á þeim rúmu fimm mínútum sem hann spilaði.

„Ég er með þannig hlutverk í liðinu að ég verð að vera tilbúinn að koma inná hvenær sem það er. Þegar það gerist þá er ég bara klár. Þannig eru hlutverkaskiptin innan liðsins og við vitum alveg hver á að gera hvað," sagði Ægir Þór Steinarsson eftir leikinn.

Ægir Þór er bara 182 sentímetrar á hæð sem er ekki mikið þegar verið að er að keppa við lið fullt af tveggja metra mönnum.

„Það er ekkert nýtt fyrir mig að spila á móti stærri mönnum. Eins og hjá okkur öllum þá er það hjartað og viljinn sem vegur upp á móti því að við erum að mæta einhverjum stærri körlum hvort sem þeir eru sterkari eða ekki," sagði Ægir.

Ægir hefur fengið aðeins meira að spila í síðustu leikjum íslenska liðsins þegar lykilmenn hafa þurft meiri hvíld.

„Ég er þannig mótor í liðinu að þegar ég kem inná þá eru aðrir menn að hvíla og ég þarf að spila af sömu orku og þeir," sagði Ægir.

Ægir skoraði laglega inn í teig á móti risunum í spænska liðinu og sýndi það hvað hann er klár í slaginn á móti þessum stóru og þungu mönnum.

„Það er ekki allan daginn sem ég næ að gera það í kringum þessa turna en það eru glufur í þeirra varnarleik eins og hjá öllum öðrum," sagði Ægir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×