Innlent

Formaður KSÍ: Kominn tími á að byggja menningarhús þjóðarinnar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, var vígreifur og stoltur þegar fréttastofan tók hann tali á Ingólfstorgi í kvöld eftir sögulegan árangur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta.

Þann árangur vildi hann fyrst og fremst þakka því starfi sem hin fjölmörgu félagslið um allt land inna af hendi.

„Þetta eru blóð, sviti og tár sem eru að skila sér núna og ég er stoltur að fá að vera leiðtogi þessarar hreyfingar í dag. Þetta er íslensk knattspyrnuhreyfing í heild sem er að skila þessu,“ sagði Geir í viðtali við Þorbjörn Þórðarson fréttamann í beinni útsendingu frá hátíðinni á Ingólfstorgi. 

Sjá má upptöku af viðtalinu í meðfylgjandi myndskeiði. 

„Það sem mér er efst í huga núna er að það er svo mikil ásókn í að vera með íslenska landsliðinu. Við byggðum Hörpuna en nú þurfum við að byggja menningarhús þjóðarinnar, yfirbyggðan leikvang þar sem við getum haft stóra viðburði. Knattspyrnuleiki fyrir tuttugu, tuttugu og fimm þúsund manns, tónleika þar sem fólkið getur komið og glaðst. Við þurfum slíkan leikvang og við þurfum skilning,“ sagði Geir og bætti ennfremur við:

„Við þurfum að byggja leikvang fyrir fólkið. Þetta er alltof lítill leikvangur og við þurfum meiri stuðning við þessa frábæru drengi sem við eigum. Í Laugardalnum eða hvar sem er á Íslandi; við þurfum að byggja þjóðarleikvang, menningarhús þjóðarinnar þar sem allir geta komið.“

Ljóst er að margir eru honum sammála, þar með talið landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason sem skaut á borgarstjóra í kvöld.


Tengdar fréttir

Ísland á EM eftir jafntefli gegn Kasakstan

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tryggði sér í kvöld sæti á Evrópumótinu sem fram fer í Frakklandi næsta sumar með 0-0 jafntefli gegn Kasakstan á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×