Körfubolti

Jón Arnór: Gleymdi því af því ég var svo fúll og leiðinlegur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson í leiknum gegn Ítalíu.
Jón Arnór Stefánsson í leiknum gegn Ítalíu. vísir/valli
Jón Arnór Stefánsson og liðsfélagar hans í íslenska körfuboltalandsliðinu stóðu sig frábærlega í gærkvöldi þrátt fyrir tapið á móti Ítölum. Þeir voru líka yfir sig hrifnir af stuðningi íslensku áhorfandanna.

Ísland eignaði sér stúkuna í leiknum við Ítali og það var gaman að horfa upp í stúku þar sem blái liturinn var allsráðandi og „Áfram Ísland" ómaði um alla höll.

„Ég vil nota tækifærið og þakka þessum Íslendingum sem eru komnir hingað til að styðja okkur. Ég gleymdi því í gær því ég var svo fúll og leiðinlegur eftir tapið," sagði Jón Arnór eftir leikinn við Ítalíu í gær.

Íslenska stuðningsfólkið þurfti Þýskalands-leikinn til að „hita" upp og þá gekk ekki eins vel að yfirgnæfa um 30 trommur þýska stuðningsliðsins. Í leiknum gegn Ítölum þá voru íslensku stuðningsmennirnir hinsvegar í stuði frá fyrstu mínútu og frábær frammistaða íslensku strákanna hjálpaði svo sannarlega til.

„Ég vil þakka þeim innilega. Við strákarnir vorum bara klökkir eftir leikinn og þökkum fyrir stuðninginn. Það er ótrúlega gaman að sjá hvað margir mættu hingað til Berlínar," sagði Jón Arnór og þessi stuðningur hjálpar þeim í baráttunni við þessa stóru og þungu karla.

„Þeir gefa okkur eitthvað extra. Ég hef aldrei upplifað svona áður. Þetta er alveg risastórt fyrir okkur og gefur þennan aukakraft sem við þurfum. Það er rosalega mikilvægt fyrir okkur," sagði Jón Arnór.

Íslenska stuðningsfólkið fær nú einn dag eins og strákarnir til að undirbúa sig fyrir Serbaleikinn á morgun og Íslendingarnir mæta örugglega í miklu stuði til leiks eftir einn túristadag í Berlín.


Tengdar fréttir

Hundrað þristar hjá Jóni Arnóri

Jón Arnór Stefánsson varð í gær þriðji leikmaður landsliðsins til að setja hundrað þriggja stiga körfur í búningi íslenska landsliðsins.

Áttum aftur möguleika að vinna gegn Ítalíu

Íslenska körfuboltalandsliðið hefur unnið hug og hjörtu margra með frammistöðu sinni í fyrstu tveimur leikjum sínum á Evrópumótinu í Berlín þrátt fyrir tvö naum töp. Liðið stóð vel í hárinu á Þýskalandi og Ítalíu í fyrstu tveimur leikjum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×