Sport

Miðnætursund á ÓL í Ríó

Spurning hvað Michael Phelps finnst um þessar nýju tímasetningar?
Spurning hvað Michael Phelps finnst um þessar nýju tímasetningar? vísir/getty
Sundþjálfarar eru brjálaðir yfir tímasetningum á sundkeppninni á ÓL í Ríó næsta sumar.

Í fyrsta sinn í sögunni verður boðið upp á miðnætursund. Það munu fara fram úrslitasund sem hefjast eftir miðnætti á staðartíma.

Úrslitasundin munu byrja klukkan 22.00 og morgunsundin færast þar af leiðandi til eitt eftir hádegi. Þjálfarar segja þetta vera óábyrgt.

Þetta er færsla um fjóra klukkutíma frá því sem sundkappar eru vanir. Þetta er að sjálfsögðu gert til þess að þjónusta sjónvarpsáhorfendur.

Þetta hentar mjög vel fyrir Bandaríkjamenn á austurströndinni þar sem Ríó er klukkutíma á undan New York. Ríó er svo fjórum tímum á undan vesturströndinni.

Tímasetningin hentar Asíu líka vel þar sem þessi sund verða á morgnana í Asíu. Evrópubúar græða aftur á móti ekkert á þessu.

Þessar breyttu tímasetningar munu reyna mikið á þá bestu sem taka þátt í mörgum greinum. Þeir þurfa að fara í viðtöl og svo lyfjapróf ef þeir vinna til verðlauna. Íþróttamennirnir gætu því verið að skríða aftur í Ólympíuþorpið snemma um morgun.

Á móti kemur að sundfólk á að fá aðstöðu í Ólympíuþorpinu þar sem minnstar líkur eru á hávaðamengun.

Það munu fleiri íþróttamenn lenda í miðnæturleikjum því strandblak, blak og körfubolti verður einnig spilaður fram yfir miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×