Fótbolti

Tróð fingri sínum í afturenda Cavani

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atvikið umrædda.
Atvikið umrædda. Mynd/Skjáskot
Síle komst í nótt áfram í undanúrslit Suður-Ameríkukeppninnar á heimavelli með 1-0 sigri á Úrúgvæ. Leikurinn var þó skrautlegur en þrjú rauð spjöld fóru á loft.

Allt ætlaði um koll að keyra þegar upp úr sauð á milli Edinson Cavani, sóknarmanni Úrúgvæ, og heimamanninum Gonzalo Jara.

Cavani var vikið af velli fyrir að slá í andlit Jara en það sem hefur nú komið í ljós er að Jara beitti fólskubrögðum til að vekja viðbrögð Úrúgvæjans og gerði svo eins mikið og hann gat úr lítilli snertingu.

Sjónvarpsupptökur sýna að Jara tróð fingri upp í afturenda Cavani. Sá síðarnefndi brást við með því að slá höndinni í andlit Jara. Sílemaðurinn féll til jarðar með miklum tilþrifum þó svo að snertingin hafi ekki verið mikil.

Jara sígur hér til jarðar eftir viðskipi sín við Cavani.Vísir/AFP
„Hvað brottvísun Cavani varðar þá sjáið þið allir hvað gerðist,“ sagði Oscar Tabarez, landsliðsþjálfari Úrúgvæ, eftir leikinn í nótt. „Ég vísa í ljósmyndir og upptökur af atvikinu - þetta er allt þarna.“

„Það er augljóst að dómarinn sá þetta ekki en aðstoðardómarinn var í góðri stöðu til að sjá þetta.“

„Við höfðum góða stjórn á leiknum en þetta varð erfiðara eftir að við misstum mann af velli. Það fækkaði möguleikum okkar í sóknarleiknum,“ bætti Tabarez við.

Síðar í leiknum fékk Jorge Fucile rautt spjald fyrir glæfralega tæklingu á Alexis Sanchez, leikmanni Síle. Allt varð vitlaust á vellinum eftir það og var til að mynda Tabarez rekinn upp í stúku fyrir að mótmæla dómnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Jara gerist uppvís að slíkri hegðun. Árið 2013 var Luis Suarez, sem einnig er landsliðsmaður Úrúgvæ, rekinn af velli fyrir að kýla Jara eftir að hann mun hafa gripið um kynfæri Suarez.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×