Lífið

Heitu laugarnar á Íslandi sem þú verður að heimsækja í sumar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jón G. Snæland á meðfylgjandi myndir. Hann hefur farið um land allt og skoðað heitar laugar.
Jón G. Snæland á meðfylgjandi myndir. Hann hefur farið um land allt og skoðað heitar laugar.

Heitar laugar á Íslandi er merkilegt fyrirbæri. Hér á landi eru bæði ósnortnar náttúrulaugar og manngerðar laugar sem skemmtilegt er að skoða og njóta.

Sumar þeirra eru við byggð en aðrar í óbyggðum á misfjölförnum slóðum. Vísir hefur fengið Jón G. Snæland, höfund bókarinnar, Heitar laugar á Íslandi, til þess að gefa lesendum innsýn inn í þessar náttúrugersemar sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Það er bókaútgáfan Skrudda sem gefur út bókina. 

Í þessari grein verður farið yfir tíu heitar laugar hér á landi, laugar sem hafa vakið mikla athygli Jóns á sinni ferð um landið. Með hverri laug fylgir GPS-hnit sem ætti að gera ferðalöngum auðvelt fyrir að finna hverja laug.   

Drangsnespottarnir (N65 41.398 W21 26.469) Í fjöruborðinu

Vatnið í pottana er fengið úr heitavatnsborholu og er um 40 gráðu heitt.

Þegar ekið inn í plássið Drangsnes á Ströndum eftir aðalgötunni að sunnanverðu. Með fram grjótvarnargarði í fjörunni. Er komið að þrem heitum pottum sem komið hefur verið fyrir í grjótgarðinum. Þar hafa tveir pottar og einu fiskikari verið komið fyrir í röð. Og byggður skemmtilegur pallur í kringum pottana. 

Vatnið í pottana er fengið úr heitavatnsborholu og er um 40 gráðu heitt. Umsjónaraðilar pottanna eru starfsmenn sveitarfélagsins. Það var árið 1997 sem fannst heitt vatn á Drangsnesi, þetta var auðvitað mikil lyftistöng fyrir sveitarfélagið. 

Á vefsvæðum segir að aðeins nokkrum dögum eftir að vatn fannst hafi heimamenn verið búnir að útbúa baðstaðinn og að öllum sé frjáls afnot af honum.              

Galtahryggjarlaug (N65 50.881 W22 39.530) Í 57 metra hæð yfir sjávarmáli

Laugin Heydal við Ísafjarðardjúp. Ekið er inn dalinn að ferðaþjónustubænum í Heydal. Þar er best að ráðfæra sig við húsráðendur enda liggur slóðin um hlaðið á bænum og niður fyrir útihúsin og í gegnum hlið. Síðan yfir Heydalsánna.

Skammt ofan við bakka árinnar stendur laugin.

Skammt ofan við bakka árinnar stendur laugin. Einnig er hægt að aka að lauginni austanvert við ána frá Djúpmannabúð um 2 km góðri slóð. Laugin stendur ofanvert við lítinn skúr sem notaður er sem búningsklefi.

Laugin er u.þ.b 2 x 4 metrar að stærð og 50 sentímetrar að dýpt, og vatnshiti um 40 gráður og rennsli 0.2-0.3 l/sek. Galtarhryggjalaug er grjóthlaðinn og fyrirhleðsla úr torfi og grjóti.

Grafarlaug (Reykjardalslaug) (N64 57.647 W21 30.953) Í 100 metra hæð yfir sjávarmáli

Ekin er þjóðvegur 60 um Dalasýslu. Rétt norðan við Bæinn Gröf er beygt út af aðalveginum. Og ekið með Grafarrétt inn Reykjadal.

Laugin var endurbyggð fyrir fáeinum misserum.

Slóðin er fær öllum farartækjum en er frekar gróf enda ofaníburður úr áreyrum Reykjadalsá. Vegalengdin að lauginni er 2.3 kílómetrar. Grafarlaug var byggð 1959 að félögum í U.M.F Æskunni í Miðdölum.

Laugin var endurbyggð fyrir fáeinum misserum. Þó eru ekki búningsklefar við laugina.

Hellulaug (N65 34.596 W23 09.640) Í 1-2 metra hæð yfir sjávarmáli

Hellulaugin er 400-500 metrum innan við þjónustumiðstöðina að Flókalundi og er laugin kennd við eyðibýlið Hellu sem var rétt innan við Flókalund, Hella var sel frá Brjánslæk og var búið það af og til fram til í kringum 1930 og þá aðallega af fólki frá Brjánslæk.

Grjóthlaðið og steypt hefur verið fyrir víkina og myndað þannig 3 x 4 metra stóra laug.

Ekið er niður að lauginni af þjóðveginum og er það stórt afmarkað bílastæði. Við enda bílastæðisins er borhola þar sem áður var laug og þaðan liggur plastslanga niður fyrir barð sem skyggir á laugina. Laugin er staðsett neðan við barðið í fjöruborðinu. Betra er að ganga niður að lauginni að austanverðu.

Þar er hægt að leggja frá sér fötin á klappirnar, því ekki er búningsaðstaða á staðnum. Laugin er staðsetti í gjótu eða vík inn í klappirnar. Grjóthlaðið og steypt hefur verið fyrir víkina og myndað þannig 3 x 4 metra stóra laug og um 60 sentímetra að dýpt, með 38 gráðu vatnshita.

Botn laugarinnar er fín malarbotn og gruggast laugin lítið við notkun. Starfsfólk Flókalundar hefur haft umsjón með lauginni en Hellulaug er friðuð eins og eyjar og fjöru Breiðafjarðar frá árinu 1995.

Hoffellspottarnir (N64 23.496 W15 20.456) hæð yfir sjávarmáli 24 metrar

Hoffell er skammt norðan við Höfn í Hornafirði og um 1 kílómetra frá þjóðvegi 1 eru Hoffells pottarnir. Á eyrunum nokkuð neðan Hoffells bæjanna er klettur á sléttlendinu.

Á síðasta áratug hafa verið boraðar nokkrar tilraunaholur við Hoffellsbæinn sem sýnt hafa fram á að þar sé nýtanlegur jarðhiti.

Þar hefur verið komið fyrir nokkrum skemmtilegum heitum pottum undir kletti. Þar var borað eftir heitu vatni á í byrjun tíunda áratugarins var sett af stað viðamikil jarðhitaleit á þessum svæðum. Á síðasta áratug hafa verið boraðar nokkrar tilraunaholur við Hoffellsbæinn sem sýnt hafa fram á að þar sé nýtanlegur jarðhiti.

Nú renna 5 sekúndulítrar af 36° heitu vatni upp úr einni borholunni. Aðrar rannsóknarholur á svæðinu eru að gefa milli 50 og 60 gráðu hita á 350-400 metra dýpi. 

Hólsgerði (N65 18.428 W18 15.530) Í 181 metra hæð yfir sjávarmáli

Hólsgerðislaug er innarlega í Eyjafjarðardölum. Ekinn er þjóðvegur 821 inn Eyjarfjörð vestanverðan, vegurinn er ekinn á enda við bæinn Torfufell og síðan inn á fjallveg F821.

Laugin er falleg og tær með grasgrónum bökkum að hluta og hefur hluti hennar verið hlaðin með grjóti.

Ekið er að gps punkti 6518419-1815557 sem er staðsetning á vegi beint ofan við laugina. Sumarhús er norður af lauginni. Frá veginum þarf að klofa yfir rafmagnsgirðingu og ganga niður fyrir veginn 198 metra í beinni loftlínu. Gengið er um gróna hlíðina niður að lauginni sem er undir háu grasivöxnu og bröttu barði.

Laugin er falleg og tær með grasgrónum bökkum að hluta og hefur hluti hennar verið hlaðin með grjóti. Laugin er 4.5 metrar að lengd og 2 metrar að breidd og rúmlega 50-70 sentímetrar að dýpt. Vatnshiti um 42 gráður. Laugin tekur 6-8 manneskjur. Malarbotn er í lauginni en einnig nokkuð af stórgrýti. Lítið vatns rennsli og gruggast lítið við notkun.           

Landbrotalaug (N64 49.923 W22 19.130) Í 23 metra hæð yfir sjávarmáli

Laugin er í landi Landbrota í Kolbeinsstaðahreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi, sunnan við Haffjarðará. Þegar komið er að sunnan eftir þjóðvegi 54 og 1,6 km leið  eftir að Haffjarðará er beygt af þjóðveginum til vinstri, inn á afleggjarann að Stóra-Hrauni, skammt frá eyðibýlinu Skjálg sem stendur hægra megin vegarins.

Laugin er um rúmlega 1x1 metrar að ummáli og um 150-160 sentímetrar á dýpt. Hitastigið er um 33-35°C.

Haldið er í gegnum grindarhlið og inn á góðan malarveg. Ekið er um 1,5 km eftir veginum og fram hjá eyðibýlinu Landbrotum en um 150 m lengra er beygt af aðalveginum til vinstri inn á ógreinilegan slóða og ekið eftir honum um 300 m. Þar er komið á lítið bílastæði.

Frá bílastæðinu eru um 100 m að lauginni eftir ógreinilegri gönguslóðar. Fara þarf yfir litla tjörn sem steinum hefur verið raðað í og er stiklað á þeim. Laugin er síðan sunnan tjarnarinnar, umgirt grjóthleðslu. Hún er um rúmlega 1x1 metrar að ummáli og um 150-160 sentímetrar á dýpt. Hitastigið er um 33-35°C.                       

Frá vinstri til hægri: Nauteyrarlaug, Ostakarið og Pollurinn.

Nauteyrarlaug (N65 55.027 W22 20.516) í 35 metra hæð yfir sjávarmáli

Laugin er í landi Nauteyrar á Langadalsströnd við innanvert Ísafjarðardjúp, 2-300 metra utan við Nauteyrarkirkju. Beygt er af  þjóðvegi 653 við punkt 6554960-2220628 og ekin 100-200 m vegalengd og er þá komið að lauginni.

Við laugina stendur lítið hús sem notað er til fataskipta og er einungis eitt rými í húsinu. Nauteyrarlaug er grjóthlaðin og rúmar stóran hóp fólks og gruggast lítið við notkun. Vatn er leitt í slöngu í laugina til áfyllingar.

Laugarvatnið er frekar heitt eða rúmlega 40°C. Því má kæla laugina aðeins með því að leiða vatnið fram hjá svolitla stund.

ATH: Landeigendur vilja koma því á framfæri að Nauteyrarlaug er á einkalandi og ekki opin almenningi.

Ostakarið (N66 03.321 W17 21.078) Í 56 metra hæð yfir sjávarmáli

Ostakarið á Húsavíkurhöfða er úr rústfríu járni og var notað af Mjólkursamsölu Flóamanna á Selfossi áður en karið kom til Mjólkursamsölunnar á Húsavík þar sem það var notað til ostagerðar. Kerið stendur á steyptri plötu og eru skúrar sem girða af tvær hliðar laugarinnar og á hinar hliðarnar eru timburveggir.

Kerið er 1.5 x 6.8 metrar og dýpi er 0.6 metrar. Gera má ráð fyrir að 18-20 manns getir baða samtímis. Vatnshiti er 25-40 gráður með gegnumstreymi. Aðstaðan er mikið notuð af heimamönnum en fyrir 10-12 árum var byrjað að nota kerið í tilraunastarfsemi af húðsjúklingum „psoriasis og exemsjúklingum” sem telja að laugarvatnið slái á sjúkdómana eða haldi þeim í skefjum við reglulega böðun.

Búningsaðstaða er við kerið í 20 feta gám, sem þó er ekki skipt upp í karla og kvennaklefa.

Pollurinn (N65 38.945 W23 53.669) Í 34 metra hæð yfir sjávarmáli

Pollurinn svo nefndi er utanvert við Tálknafjörð ( Sveinseyri ). Og er ekinn Tálknafjarðarvegur út í gegnum þorpið í átt að Stóra-Laugardal. Frá sundlaug bæjarins eru 3.6 kílómetrar að lauginni, Laugin er rétt ofan við veginn og ber lítið á henni frá veginum og því auðvelt fyrir ókunnuga að aka framhjá ef ekki er gáð að sér. 

Pottarni eru þrír af misjafnri stærð og dýpi og er búningsaðstaða við laugina í fínum og snyrtilegum skúr. Þar eru bæði karla og kvenna klefar með bekkjum og fatasnögum. Þar er einnig sturta. Pottarnir eru steinsteyptir 2x2 m og 1m á dýpt, 1.35x2 og 0.5 m á dýpt og 2x2.8 m og 0.4 m á dýpt og vatnshiti um 46 gráður.

1997 var boruð þar borhola , en úr henni var fengið vatn til sundlaugarinnar á Sveinseyri og til þess að hita upp skólann og íþróttahúsið. Laugin eða Pollurinn eins og pottarnir kallast voru byggðir 1985 og vígðir samkvæmt skrift í steypunni þann 15 maí. Tálknafjarðarhreppur sér um viðhald og rekstur svæðisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×