Erlent

Nýtt myndband sýnir aðdraganda að skotum lögreglumannsins

Anna Guðjónsdóttir skrifar
Walter Scott sést hlaupa undan lögreglunni.
Walter Scott sést hlaupa undan lögreglunni. Skjáskot úr myndbandinu.
Nýtt myndband hefur komið fram í tengslum við morðið á Walter Scott, en lögreglumaðurinn Michael Slager hefur verið ákærður fyrir morðið. Myndbandið er úr myndavél lögreglubíls og sýnir lögregluna stöðva Scott vegna þess að afturljós bíl hans eru brotin. Lögreglumaðurinn biður Scott að bíða í bílnum en hann stígur út og hleypur burt. Slager fylgir á eftir en annar lögreglumaður fylgist með farþega í bíl Scott.

Upptaka af kalli lögreglunnar eftir hjálp hefur einnig verið birt á netinu. Þar segir Slager að Scott hafi reynt að ná rafmagnsbyssu sinni. Myndband sem vitni tók á farsíma segir aðra sögu. Þar sjást mennirnir takast á og Scott hleypur frá lögreglumanninum. Slager skýtur þá átta skotum og fimm þeirra lenda á Scott, sem hnígur niður.

Vitni óttaðist um líf sitt

Vitnið, Feidin Santana, segist ekki hafa séð Scott reyna að ná rafmagnsbyssu lögreglumannsins en segist hafa séð þá takast á. Hann tekur þó fram að ljóst hafi verið að lögreglumaðurinn hafi haft yfirhöndina. Fórnalambið virðist ekki vera með neitt vopn þegar hann hleypur burt. Á myndbandinu sést Slager beygja sig, sækja eitthvað á jörðinni og leggja það hjá manninum eftir að hann hefur verið skotinn. Santana segist hafa íhugað að birta ekki myndbandið þar sem hann óttaðist um líf sitt.

Annar lögreglumaður sést koma á vettvang en hvorugur mannanna reynir að bjarga lífi fórnalambsins, sem hefur verið skotinn nokkrum sinnum. Báðir segja þó að þeir hafi reynt, en myndbandið sýnir Scott liggja hreyfingarlausan þegar hann er handjárnaður af Slager. Hinn skoðar skotsár Scott og í upptöku lögreglumannanna heyrast þeir óska eftir sjúkrabíl.

209 einstaklingar skotnir af lögreglu

Óvíst er hvers vegna fjögurra barna faðirinn hljóp undan lögreglunni, en talið hefur verið að hann hafi skuldað meðlag sem hefði getað leitt til handtöku hans.

Slager hefur verið ákærður fyrir morð, en fjölskylda fórnalambsins hefur sagt í viðtölum að þau telji líklegt að hefði myndbandið ekki verið birt hefði Slager sloppið við ákæru. Síðustu fimm ár hafa 209 einstaklingar verið skotnir af lögreglunni í Suður Karólínu og 79 þeirra létust. Aðeins þrír lögreglumenn hafa verið ákærðir en enginn dæmdur. Myndbandið hefur vakið hörð viðbrögð í Bandaríkjunum þar sem mörg mál hafa komið upp þar sem hvítir lögreglumenn skjóta svarta.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×