Innlent

Slappleiki þriggja ára stúlku á Selfossi reyndist vera hvítblæði

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Hún er mjög hress og sterk stelpa og hefur alltaf verið.“
"Hún er mjög hress og sterk stelpa og hefur alltaf verið.“
Tanja Kolbrún Fannarsdóttir er þriggja ára stúlka sem í síðasta mánuði greindist með hvítblæði. Ástvinir Tönju Kolbrúnar hafa hafið söfnun henni til stuðnings en fram undan er tveggja og hálfs árs lyfjameðferð með tilheyrandi kostnaði.

Vísir hafði samband við Fannar Geir Ólafsson, föður Tönju, sem féllst á að segja frá veikindum dóttur sinnar sem greindist með hvítblæði fyrir þremur vikum síðan. Hún hafði þá í nokkra daga verið slöpp og fóru foreldrar hennar því með hana á heilsugæsluna á Selfossi. Vakthafandi læknir tók ákvörðun um að senda Tönju Kolbrúnu í blóðprufu sem vakti grun um að um hvítblæði væri að ræða.

Erfiðir tímar fram undan

„Við fengum símtal þar sem okkur var sagt að fara til Reykjavíkur á Barnaspítalann. Hún fór þar í alls kyns rannsóknir og blóðprufur og þá fáum við hugmyndir af því hvað þetta gæti verið. Degi síðar var okkur sagt að það væru um 95-100 prósent líkur á að hún væri með það sem kallast ALL barnahvítblæði,“ segir Fannar Geir Ólafsson, faðir Tönju Kolbrúnar, í samtali við Vísi.

Hann segir afskaplega erfitt að hafa fengið þessar fregnir. Þeim verði þó tekið með jákvæðnina að vopni, enda hafi fjölskyldan fundið fyrir miklum stuðningi allt í kring. „Þetta eru auðvitað mikil viðbrigði fyrir hana, þrátt fyrir að hún geri sér ekki alveg grein fyrir þessu, enda bara þriggja ára. En hún er mjög hress og sterk stelpa og hefur alltaf verið. Við vitum að þetta verður erfitt, hún má ekki fara í leikskóla og getur ekki verið mikið meðal almennings, því ónæmiskerfið höndlar það ekki.“

Orðlaus yfir stuðningnum

Átta aðilar tengdir Tönju Kolbrúnu hófu söfnunina í vikubyrjun. Fannar segist þeim afar þakklátur, bæði fyrir stuðninginn og alla aðstoðina. „Ég átti bara ekki orð þegar mér var sagt frá þessu. Maður veit varla hvernig maður á að haga sér þegar svona kemur upp. Þau vilja láta gott af sér leiða og ótrúlega fallegt að þau skuli gera þetta fyrir litlu stelpuna okkar,“ segir Fannar.

Barnaspítali hringsins og styrktarfélag krabbameinssjúkra barna hafa einnig staðið mjög þétt við bakið á okkur. Við erum þeim einnig afar þakklát,“ segir Fannar.

Haldnar verða opnar æfingar í líkamsræktarstöðinni Kraftbrennslunni á Selfossi hinn 2. maí næstkomandi. Aðgangseyrir eru 1.500 krónur og rennur upphæð sú óskipt til Tönju og fjölskyldu. Frjáls framlög eru einnig vel þegin en styrktarreikningurinn er eftirfarandi:

Reikningur: 0325 - 13 - 110106

Kennitala: 210911-2190




Fleiri fréttir

Sjá meira


×