Körfubolti

Emil: Ætlum að sýna að þriðja sætið var engin heppni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fyrsta viðureign Hauka og Keflavíkur í rimmu liðanna í átta liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta fer fram að Ásvöllum í kvöld.

„Við verðum öflugir, ég hef tröllatrú á því. Við erum með hrikalega góðan Kana undir körfunni og einn besta ef ekki besta bekkinn í deildinni,“ segir Emil Barja, leikstjórnandi Hauka, við Vísi.

Haukarnir enduðu í þriðja sæti deildarinnar en Keflvíkingar í því sjötta.  „Við unnum fyrir þessu þriðja sæti og nú ætlum við að sýna að það var engin heppni,“ segir Emil ákveðinn, en Haukarnir eru á miklum skriði eftir að detta niður um mitt mót.

„Við byrjuðum deildina mjög vel en duttum svo niður. Eftir Skallagrímsleikinn, sem var síðasti tapleikurinn, töluðum við saman og rifum okkur upp. Síðan þá höfum við spilað vel.“

Haukarnir hræðast ekki reynslumikið lið Keflavíkur og stefna að því að sækja fast að körfunni með Alex Francis.

„Við unnum þá í síðasta leik þannig við vitum að við getum það. Við erum sterkari undir körfunni þannig boltinn á eftir að fara mikið á Alex þar,“ segir Emil, en hversu langt ætla Haukarnir?

„Við ætlum alla leið. Það er ekkert annað í boði en við hugsum bara um einn leik í einu.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×