Körfubolti

Frank Booker yngri vill spila með íslenska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Booker í leik með Oklahoma Sooners.
Frank Booker í leik með Oklahoma Sooners. Vísir/Getty

Frank Booker yngri, leikmaður bandaríska háskólaliðsins Oklahoma Sooners, segir vera tilbúinn að spila með íslenska körfuboltalandsliðsins í sumar en kappinn var í viðtali á karfan.is.

Frank Booker yngri er sonur eins eftirminnilegasta bandaríska leikmannsins sem hefur spilað í íslensku deildinni en Frank Booker skoraði meðal annars 43,2 stig og 7,8 þrista í leik fyrsta tímabilið sitt í íslensku deildinni.

Frank Booker yngri er fæddur árið 1994 og á íslenska mömmu en hann fór snemma út til föður síns og stjúpmóður. Booker er á sínu öðru ári með Oklahoma Sooners háskólanum.

„Það yrði að sjálfsögðu heiður fyrir mig að spila fyrir íslenska landsliðið og ef á mig yrði kallað myndi því kalli vera svarað. Ég heyrði í þjálfaranum (innsk.  Craig Pedersen) síðasta sumar en komst þá ekki til æfing vegna skólans hjá mér hérna úti. En ég hef ekki heyrt í honum síðan en hefði viljað heyra í honum með sumarið og hvort einhver verkefni væru framundan. Við pabbi höfum rætt þetta saman og hann sagði að þetta yrði mjög gott fyrir mig." sagði Frank í viðtali við karfan.is.

Frank Booker yngri fylgist þó lítið með því sem er að gerast í íslenskum körfubolta því hann vissi ekki að Ísland væri að fara taka þátt í úrslitakeppni Evrópumótsins í fyrsta sinn.

„Þetta hljómar sem gríðarlega spennandi verkefni og að sjálfsögðu yrði ég með ef tækifærið gæfist. Varðandi skólann þá yrði ég að koma því þannig í kring að ég fengi að fara í verkefnið en ég sé ekki að þjálfarinn eða skólinn muni stoppa mig í því að spila fyrir land mitt og þjóð.  Að því sögðu yrði ég samt sem áður að virða þeirra ákvörðun hvernig sem hún yrði," sagði Frank Booker yngri en það má lesa allt viðtalið við hann hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.