Erlent

Ehud Olmert dæmdur í fangelsi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ehud Olmert
Ehud Olmert
Ehud Olmert, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, þarf að sitja sex ár í fangelsi vegna mútumáls, sem mun vera eitt hið stærsta í sögu landsins.

Olmert var forsætisráðherra Ísraels frá 2006 til 2009, en hafði gegnt ráðherraembættum auk þess að vera borgarstjóri í Jerúsalem frá 1993 til 2003.

Hann verður þar með fyrstur ísraelskra forsætisráðherra til þess að hljóta fangelsisdóm, en á síðustu árum hafa ísraelskir dómarar dæmt forseta landsins, ráðherra og nokkra þingmenn til fangelsisvistar.

Olmert var dæmdur sekur um að hafa þegið svimandi háar mútugreiðslur gegn því að liðka til fyrir byggingarframkvæmdum þegar hann var borgarstjóri í Jerúsalem.

„Opinber embættismaður sem þiggur mútur jafnast á við svikara,“ sagði David Rozen dómari þegar hann kvað upp dóminn í gær.

Olmert sagði af sér árið 2009 þegar málið komst í hámæli. Hann hélt samt enn fast við það í gær að hann væri saklaus og hefði aldrei þegið mútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×