Innlent

Ómar vill bæjarfulltrúa í fullt starf

Freyr Bjarnason skrifar
Hart var deilt um tillögu Ómars á bæjarstjórnarfundinum í gær. Hér er bæjarstjórinn, Ármann Kr. Ólafsson, í pontu.
Hart var deilt um tillögu Ómars á bæjarstjórnarfundinum í gær. Hér er bæjarstjórinn, Ármann Kr. Ólafsson, í pontu. Fréttablaðið/Stefán
Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kópavogi, lagði í gær fram tillögu um að starfshlutfall bæjarfulltrúa verði hækkað úr 27 prósentum í 100 prósent.

Fyrri tillaga Ómars, sem ekki var lögð fram í bæjarráði, hljóðaði upp á að hlutfallið yrði 100 prósent af þingfararkaupi sem hefði þýtt hækkun launa úr 170 þúsund krónum á mánuði í 630 þúsund. Fyrir vikið varð mikið fjaðrafok á bæjarstjórnarfundi í gær eftir að sú tillaga hafði birst fyrst á síðunni Kjarninn.is.

Í samtali við Fréttablaðið sagðist Ómar hafa gert mistök þegar hann afritaði texta frá skýrslu starfshóps um bætt vinnubrögð bæjarstjórnar Kópavogs þar sem orðið „þingfararkaup“ var að finna. Það hafi aldrei átt að vera í tillögu hans. „Það var aldrei hugsunin að hækka launin, heldur fyrst og fremst að skilgreina starfið sem fullt starf.

Maður á ekki að drýgja tekjurnar með því að vera í bæjarstjórn heldur eiga menn að vera þar í fullu starfi,“ segir Ómar, sem taldi réttast að leggja tillöguna fram núna þar sem meirihluti bæjarstjórnarfulltrúa muni hverfa frá störfum á næstunni. Breytingin á að taka gildi um næstu áramót.

Aðalsteinn Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi tillöguna harðlega. „Ef við samþykkjum að breyta þessu hlutfalli erum við að opna á óútfylltan tékka.“

Á fundi bæjarstjórnar var samþykkt að vísa tilllögu Ómars til forsætisnefndar Kópavogs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×