Erlent

Fjörutíu lík og brak úr vélinni hafa fundist

Atli Ísleifsson skrifar
Ættingjar farþega vélarinnar syrgja.
Ættingjar farþega vélarinnar syrgja. Vísir/AP
Leitarmenn í Jövuhafi hafa nú náð fjörutíu líkum úr sjónum en nær fullvíst má telja að um farþega úr vél AsiaAir sé að ræða. AFP greinir frá þessu.

Farangur og björgunarvesti hafa einnig fundist á svæðinu, en auk þess hafi sést skuggi í vatninu í laginu eins og flugvél.

Líkin fundust innan leitarsvæðisins, undan strönd indónesíska hluta eyjarinnar Borneó. Þau verða nú flutt til Pangkalan Bun, nálægs bæjar í Kalimantan-héraði.

Björgunarlið frá mörgum þjóðlöndum koma að leitinni en 162 voru um borð í vélinni sem hvarf af ratsjá um klukkustund eftir flugtak frá Surabaya í Indónesíu á sunnudag.

Slæmt veður var á flugleiðinni og hafði flugstjórinn beðið um heimild til að hækka flugið. Áður en hægt var að veita slíka heimild hvarf vélin hinsvegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×