Viðskipti innlent

Dósirnar líkar: Ætlaði að kaupa Tuborg en keypti Thule

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Dósirnar eru báðar bláar og með snjókornum á.
Dósirnar eru báðar bláar og með snjókornum á.
Líkindi jólabjórsins frá Thule og Tuborg hefur vakið athygli margra. Dósirnar eru báðar bláar með snjókornum á. Á báðum eru teiknimyndir sem einhverjum þykja vera í svipuðum stíl.

Meðal annars hefur þetta verið rætt í Facebook-hópnum Markaðsnördar.

Einn sem tjáði sig þar var Andri Daði Aðalsteinsson, sem sagði frá því að hann hafði keypt Thule fyrir mistök; hann hafi ætlað sér að kaupa Tuborg. Í samtali við Vísi segir Andri frá því að það var í raun eiginkona hans sem benti honum á hvaða bjór hann var að drekka.

Var búinn að drekka tvo

„Ég var meira að segja búinn að drekka tvo bjóra áður en konan benti mér á þetta,“ segir Andri og hlær.  „Ég ætlaði að kaupa mér Tuborg og gerði mér bara enga grein fyrir því að ég væri með Thule. Ég pældi reyndar í því að mér þótti bragðið heldur skrýtið. En maður drekkur jólabjórinn bara einu sinni á ári, þannig að ég hélt að ég hefði bara verið búinn að gleyma bragðinu.“

Andri bað svo konu sína að setja bjór fyrir sig inn í ískáp. „Já, ég bað hana að setja einn Tuborg inn í ískáp. Hún sagði mér að þetta væri Thule og ég sagði við hana að þetta væri sko Tuborg. Þegar hún sýndi mér dósina rann þetta upp fyrir mér, ég var að drekka Thule.“

Andri var búsettur í Danmörku og segir það hafa verið mikla upplifun þegar jólabjórinn kom í búðir. „Já, þetta var alltaf vel auglýst og manni fannst þetta alltaf rosalega gaman. Þeir voru með bílalest sem þeir keyrðu um og gáfu bjóra og alls konar varning. Það var mikil stemning í kringum þetta.“

Andri segist næst ætla að kaupa sér Tuborg, þegar hann verslar jólabjór. „Thule bjórinn var samt rosalega góður. Alveg þrælgóður. En næst er það Tuborg. En annars er mjög ánægjulegt hvað það er mikið úrval af jólabjór. Þetta er frábært fyrir áhugamenn um bjór.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×