Enski boltinn

Tekjur United minnkað - líklega enginn keyptur í janúar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ed Woodward og félagar punguðu út 59,7 milljónum punda fyrir Ángel Di María.
Ed Woodward og félagar punguðu út 59,7 milljónum punda fyrir Ángel Di María. vísir/getty
Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United, segir afar ólíklegt að félagið kaupi nýjan leikmann í janúar. Það verður ekki gert nema einhver af þeim mönnum sem liðið ætlar sér að reyna við næsta sumar verði laus í byrjun nýs árs.

Manchester United eyddi 150 milljónum punda í leikmenn í sumar en hefur aðeins unnið fjóra af fyrstu ellefu leikjum liðsins í úrvalsdeildinni. Það hefur þó glímt við mikil meiðslavandræði.

Fyrr í dag tilkynnti félagið 9,9 prósent tekjuskerðingu á fyrsta fjórðungi nýs fjármálaárs sem stafar af fjarveru United úr Meistaradeildinni.

Auglýsingatekjur fóru niður um 5,2 prósent, tekjur af leikdegi niður um 21,8 prósent og sjónvarpstekjur niður um 13 prósent, að því fram kemur í tilkynningu Manchester United.

Þrátt fyrir þetta hagnaðist United um 8,9 milljónir punda á ársfjórðungnum. Skuld félagsins vegna yfirtöku Glazer-fjölskyldunnar jókst þó um 0,3 prósent og stendur í 362,2 milljónum punda.

Aðspurður af hluthafa á símafundi í dag hvort United ætli að bæta enn frekar við leikmannahópinn þegar félagaskiptaglugginn verður opnaður í janúar sagði Ed Woodward:

„Við erum ekki að leita að leikmönnum sem styrkja liðið til styttri tíma. Hinsvegar munum við kannski stökkva til ef einhver af þeim leikmönnum sem við ætlum að reyna við næsta sumar losni. Það er þó mjög sjaldgæft. Við búumst ekki við að nokkuð gerist í janúar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×