Innlent

„Hann er búinn að fella mig og ég ligg í valnum“

Samúel Karl Ólason skrifar
Reynir Traustason og Sigurður G. Guðjónsson.
Reynir Traustason og Sigurður G. Guðjónsson. Vísir/Anton
„Það er nú ekki búið að reka mig, formlega séð. Það er búið að víkja mér frá og ég má ekki koma á ristjórnina eða nota tölvupóstinn minn. Ég má ekki hitta fólkið, ekki einu sinni til að kveðja,“ segir Reynir Traustason, sem var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Reynir var fenginn í þáttinn vegna greinar Sigurðar G. Guðjónssonar á pressan.is, en þar skrifar Sigurður um ritstjórnarlegt sjálfstæði og skuldir DV.

„Það vissi öll þjóðin að DV skuldaði hundrað og eitthvað milljónir í lífeyrissjóði og skatta. Þetta gerðist á vakt Lilju Skaftadóttur stjórnmálamanns og það er væntanlega þetta sem að Sigurður er að tala um.“

Reynir segir að nýir meirihlutaeigendur DV mættu vera stórir í sigrinum.

„Ég er löngu hættur að skilja Sigurð G. Guðjónsson. Hann mætti á ritstjórn DV og lét eins og hann væri með höfuðleðrið af mér. Hann er búinn að fella mig og ég ligg í valnum. Það er ekkert flóknarar en það,“ segir Reynir.

„Hvað gerir hann þá? Þá byrjar hann að sparka í hausinn á mér.“

„Ég ætla bara að segja við Sigurð og fleiri. Menn verða að vera stórir í sigrinum. Nú hafa þeir unnið og þá á ekki að sparka í þá sem að liggja í valnum.“

Reynir segir að Þorsteinn Guðnason, nýr stjórnarformaður útgáfufélags DV, eigi að biðja starfsfólkið afsökunar vegna þess að til stóð að gera úttekt á faglegum þáttum í starfsemi miðilsins. Hætt hefur verið við þá úttekt.

„Ég ætlast ekki til neins af Þorsteini gagnvart mér. Hann sýnir þá virðingu sem hann hefur sóma til að sýna, en hann á að sýna þessu fólki virðingu allavega.“

Reynir segist hafa áhyggjur af blaðinu. Það sé áhlaup gegn því og að áskrifendur hafi hætt í hrönnum.

„Það var upplýst í síðustu viku að það væru farnir fimm hundruð áskrifendur. Það eru farnir miklu fleiri í dag og það er mikið áhyggjuefni. Þar ættu þessir menn sem eru búnir að ná völdum að staldra við. Áskrifendur eru okkar verðmætasta eign.“

„Ég segi okkar, þar sem ég er hluthafi ennþá.“

Þetta segir Reynir vera mikið áhyggjuefni.

„En kannski eiga þeir nóg af peningum og geta hent inn því sem þarf. Kannski ætla þeir sér að eyðileggja þetta.“


Tengdar fréttir

Hætt við faglega úttekt á DV

Stjórn útgáfufélags DV hefur fallið frá þeirri ákvörðun að láta skoða sérstaklega faglega þætti ritstjórnar blaðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá útgáfufélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×