Erlent

Rússar gætu hafa gleymt Íslandi

Heimir Már Pétursson skrifar
vísir/afp
Norskur sérfræðingur í alþjóðamálum segir erfitt að útskýra hvers vegna Rússar beita Norðmenn en ekki Íslendinga viðskiptaþvingunum. Hugsanlega eigi Rússar eftir að bæta Íslandi á listann eða þeir vilji hafa opna leið til að flytja vestrænar vörur inn í gegnum Ísland.

Það hefur vakið athygli að Rússar hafa ákveðið að setja innflutningsbann á norskar matvörur en ekki Íslenskar, en löndin eru bæði aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og flytja út svipaðar vörur til Rússlands. Þá hafa bæði ríkin lýst stuðningi við efnahagsþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gagnvart Rússum.

Indra Øverland framkvæmdastjóri hjá Norsku alþjóðamálastofnuninni (NUPI) segir erfitt að útskýra hvers vegna Ísland er ekki á lista Rússa, ef til vill hafi þeir hreinlega gleymt Íslandi eða finnist það ekki skipta máli vegna smæðarinnar.

„Ég hreinlega veit ekki ástæðuna en það getur hugsast að þeir vilji með þessu halda opinni leið til að kaupa vestrænar vörur sem þeir hefðu annars flutt inn frá Noregi og öðrum löndum frá og í gegnum Ísland,“ segir Øverland.

Indra Øverland.
Norsk stjórnvöld ekki hafa verið herskárri gagnvart Rússum en stjórnvöld annarra vestrænna ríkja. „Carl Bildt utanríkisráðherra Svía hefur t.d. verið mjög neikvæður út í Rússa og sænsk stjórnvöld og dönsk hafi verið mun neikvæðari gagnvart Rússum en Norðmenn og Anders Fough Rasmussen framkvæmdastrjóri NATO er auðvitað danskur,“ segir Øverland.

Hann segir aðgerðir Rússa setja þrýsting á vestræna stjórnmálamenn heima fyrir, sérstaklega ef Úkraína fjari út í fréttum og útflutningsfyrirtæki á Vesturlöndum fari að finna verulega fyrir rússneska influtningsbanninu.

„Það er hins vegar alls ekki víst að það gangi eftir vegna þess að samband Rússlands og Vesturlanda er svo slæmt um þessar mundir að ólíklegt er að viðskiptaþvingunum Vesturlanda og gagnþvingunum Rússa verði aflétt í náinni framtíð,“ segir Øverland.

Innflutningsbannið hafi lítil áhrif á stöðu Vladimir Putins Rússlandsforseta heimafyrir á meðan rúblan falli ekki og atvinnuleysi haldi áfram að vera lítið í Rússlandi.

„Atvinnuleysi er mjög lítið í Rússlandi. Rússland er ríkt land og mun ríkara en opinberar tölur segja til um fyrir margra hluta sakir, vegna svarta markaðarins og vegna þess að rússneskur efnahagur er á margan hátt ólíkur þeim vestræna,“ segir Øverland.

Fari Rússar hins vegar yfir landamærin til Úkraínu sé skrattinn laus, því úkraínskir þjóðernissinnar geti valdið miklum usla með hryðjuverkum í Rússlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×