Viðskipti innlent

Ekkert Fanta Lemon á Íslandi í sumar

Stefán Ó. Jónson skrifar
Fanta Lemon verður ekki framleitt í sumar líkt og verið hefur síðustu sumur.

Drykkurinn á sér marga gallharða aðdáendur hérlendis sem hafa löngum þurft að berjast fyrir áframhaldandi framleiðslu Fanta Lemon en þetta er ekki í fyrsta sinn sem sala á drykknum er stöðvuð.

Til að mynda fóru gosdrykkjaunnendur í herferð á netinu í upphafi árs 2009 fyrir því að framleiðsla Fanta Lemon yrði hafin á nýju og á þriðja þúsund manns skrifaði undir áskorun þess efnis á Facebook. Hafði drykkurinn þá verið illfáanlegur frá aldamótum. Varð það til þess að Vífillfell féllst á kröfur þeirra og hóf sölu á Fanta Lemon að nýju en drykkurin hefur verið fáanlegur í nokkra mánuði yfir hásumarið á síðustu árum. Nú er hins vegar ljóst að því verður öðruvísi farið þetta sumarið.



Jón Viðar Stefánsson, markaðsstjóri gosdrykkja hjá Vífilfelli, segir framleiðslustöðvunina tilkomna vegna breyttra áherslna hjá fyrirtækinu. Nýverið hafi drykkurinn Fanta Zero verið kynntur til sögunnar og vildu þau hjá Vífilfelli heldur einbeita sér að því að koma þessum „sykurlausa sumardrykk“ á markað en að hefja framleiðslu á Fanta Lemon að nýju. Salan á drykknum hafi einfaldlega ekki staðið undir sér á síðustu árum.

Því hafi verið tekin sú ákvörðun að bjóða ekki upp á Fanta Lemon þetta sumarið – en Jón Viðar útilokar þó alls ekki að drykkurinn verði fáanlegur í íslenskum verslunum í framtíðinni. „Ef eftirspurn og aðstaða á markaði kalla á slíkt,“ eins og hann kemst að orði.

Hér að ofan má sjá umfjöllun fréttastofu Stöðvar 2 af því þegar tekið var að framleiða Fanta Lemon að nýju í maí árið 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×