Innlent

Ákærð fyrir ummæli á Facebook: Sagði oddvitann hafa smjaðrað út traktor

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Konu á þrítugsaldri er gefið að sök að hafa ritað ærumeiðandi aðdróttanir á Facebook um þáverandi oddvita Eyja- og Miklaholtshrepps í nóvember í fyrra en mál yfir henni var þingfest í Héraðsdómi Vesturlands í dag.

Hún er ákærð fyrir að hafa ritað ummælin á samskiptasíðuna þann 24. nóvember 2013 og voru þau í birtingu til 27. sama mánaðar. 

Athugasemd hennar beindist að fyrrgreindum oddvita Eyja- og Miklaholtshrepps, Guðbjarti Gunnarssyni, en í henni ýjaði konan að því að hann hafi  þegið mútur frá verslunareiganda í  hreppnum.  Hún sagði oddvitann  hafa „smjaðrað“ fyrir verslunareigandanum sem hafi launað Guðbjarti flaðrið með nýjum traktor.

Í samtali við Vísi segir Guðbjartur að „auðvitað hafi ekki verið fótur fyrir þessum ásökunum konunnar“, ellegar hefði hann ekki ákveðið að fara með málið fyrir dóm. Hann segir að hann hafi gefið konunni kost á því að draga ummælin til baka, sem hún gerði, en hún eyddi ummælunum sem fyrr segir að fjórum dögum liðnum.

Að mati Guðbjarts dró konan ummælin þó til baka með slíkum hætti að það hafi í raun gert gert illt verra. „Þegar hún fjarlægði athugasemdina skrifaði hún á Facebook eitthvað á þá leið hún vildi ekki meiða viðkvæma sálir en að sannleikur væri alltaf sannleikur,“ segir Guðbjartur og bætir við að því hafi það „eina í stöðunni verið að láta málið farið sína leið.“

Verði hún fundin sek gæti hún átt yfir höfði sér sekt eða allt að eins árs fangelsisdóm. Konan neitaði sök í héraðsdómi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×