Körfubolti

Hrannar Hólm ráðinn landsliðsþjálfari Danmerkur

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Tvöfaldur meistari með SISU fjögur ár í röð
Tvöfaldur meistari með SISU fjögur ár í röð MYND/HEIMASÍÐA SISU
Hrannar Hólm sem verið hefur íþróttastjóri hjá danska körfuknattleikssambandinu hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari danska kvennalandsliðsins í körfubolta.

Hrannar hefur náð frábærum árangri með kvennalið SISU í danska körfuboltanum og gert liðið að tvöföldum meisturum fjögur ár í röð. Áður þjálfaði hann karlalið KR, Njarðvíkur og Þórs á Akureyri.

Hrannar heldur áfram starfi sínu sem íþróttastjóri en hann mun vinna eftir þriggja ára áætlun með liðið þó samningurinn verði skoðaður eftir fyrsta árið.

Ernst Jensen formaður KKÍ þeirra Dana er hæstánægður með ráðninguna. „Við ákváðum að fara af stað með kvennalandsliðið á ný í sumar og fyrsta verk var að finna þjálfara.

„Hrannar er einn sigursælasti þjálfari dansks kvennakörfubolta og hefur mikla alþjóðlega reynslu. Við höfum ráðið mjög hæfan þjálfara og við hlökkum til að sjá gott kvennalandslið í sumar,“ sagði Jensen.

„Ég hlakka til verkefnisins. Við eigum marga góða og hæfileikaríka leikmenn og það verður áhugavert að sjá hvernig liðið stendur sig gegn Austurríki og Íslandi,“ sagði Hrannar en eitt af fyrstu verkefnum danska liðsins er að mæta Íslandi í vináttulandsleik í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×