Skoðun

Það skiptir ekki máli hvernig við föllum, heldur hvernig við stöndum upp!

Viktor Scheving Ingvarsson skrifar
Mikil umræða og ólga hefur verið í okkar samfélagi vegna vandamála í Grunnskóla Grindavíkur. Rótin er eineltismál. Þegar málið kemur upp er það rannsakað, að því loknu liggur fyrir niðurstaða. Ekki er deilt um niðurstöðuna, heldur hvernig brugðist var við. Aðgerðaáætlun skólans í kjölfar málsins var að margra mati ófullnægjandi, þjónaði ekki þolendum og skapaði mikla óánægju og ólgu. Málið fer hátt og ratar í fjölmiðla. Því miður.  

Ég er stjúpfaðir þolanda í þessu máli. Margir bíða eftir því að ég tjái mig um málið. Það er ekki undarlegt, ég hef ekki að öllu leyti verið sáttur við vinnubrögð skólans í málinu. 

Mig langar til að segja ykkur frá minni framtíðarsýn um verklag í nákvæmlega svona málum. Þetta er ekki flókið, bara einfalt vinnulag sem kæmi í flestum tilfellum í veg fyrir að allt fari í háaloft í smærri samfélögum eða að óhugnaður eins og þöggun þrífist. Drögum lærdóm af þessu leiðinlega máli, reynum að koma í veg fyrir að það sama hendi annars staðar. En það myndi þýða breytingar á verklagi á milli ríkis og sveitarfélaga.

Þegar niðurstaða lá fyrir í þessu máli, hófust vandræðin. Eðlilega bjóst ég við að heilbrigð aðgerðaáætlun fylgdi strax í kjölfar niðurstöðunnar. Því miður varð brotalöm á því og tortryggni og efsemdarfræjum sáð. Ísland er fámennt og um allt eru vensl og tengsl. Þannig var það í þessu máli. Gerandinn starfsmaður til áratuga. Lítið samfélag á í miklum erfiðleikum með mál af þessu tagi. Þau verða ofhlaðin tilfinningum. Það sannar sagan. Það þarf sterk bein til taka á svona málum og þau eru ekki alltaf til staðar. Þá er þöggunin oft lausnin. Skelfileg lausn! Hana verður að uppræta. 

Í þessari grein ætla ég ekki að fara frekar út í málið sjálft en ég ætla í staðinn að koma með tillögu til ykkar. Tillögu að úrlausn eineltismála þegar um er að ræða starfsmann og nemanda. Tillögu um hvernig við vinnum svona mál í framtíðinni. Tillögu sem við útfærum og kynnum menntamálaráðherra sem fyrirmynd að lagasetningu um viðbrögð við svona kringumstæðum. Tökum forystu í því hvernig á að leysa svona mál.

Tillagan gengur út á það að við gerum ekki neitt, þegar fyrir liggur að starfsmaður hefur lagt barn í einelti. Þetta hljómar kannski fáránlega. En það sem ég á við er að málið fari, samkvæmt nýjum lögum, á annað stig. Við fengjum utanaðkomandi aðila til að rannsaka málið og réttast væri að óháðir aðilar í menntamálaráðuneyti færu svo yfir niðurstöðu rannsóknarinnar og tækju ákvörðun um viðbrögð. Ég sæi fyrir mér að þarna yrði umboðsmaður barna, maður frá Kennarasambandinu, sál- og lögfræðingar. Þetta yrði mun betra fyrirkomulag fyrir yfirmann fræðslusviðs, skólameistara og bæjarstjórn. Auðvitað yrði fólk ekki alltaf sátt við niðurstöðu einstakra mála, en vonandi væri hún byggð á skynsemi ekki tilfinningum. Það er lykilatriði! Særindin yrðu líka örugglega minni. Fólk myndi upplifa þessa leið sem leið réttlætis. Það er verðugt markmið!

Viktor Scheving Ingvarsson

áhugamaður um betra mannlíf. Undirritaður er skipstjóri og situr í þriðja sæti á lista Samfylkingar í Grindavík.


Tengdar fréttir

„Mér finnst þetta bara ótrúlega sorglegt mál"

Eggjum var kastað í tvö hús í Grindavík í nótt, að því er virðist í tengslum við umdeilt mál í bænum, þar sem grunnskólakennari er sakaður um að leggja börn í einelti. Móðir eins barnanna kveðst vilja að þau geti farið óhrædd í skólann.

„Málinu er lokið og snýr umræddur kennari aftur til starfa“

Hildur Hafstað, skólastjóri Vesturbæjarskóla, sendi í morgun tölvupóst á alla foreldra barna í skólanum vegna máls þar sem kennari í Vesturbæjarskóla, sem sakaður hefur verið um einelti, mun snúa aftur til starfa næstkomandi föstudag.




Skoðun

Sjá meira


×