Íslenski boltinn

Úrslitaleiknum frestað vegna handboltaleiks

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Mótastjórn KSÍ ákvað í gær að færa úrslitaleik FH og Breiðabliks í deildabikarkeppninni aftur um einn dag.

Leikurinn fer nú fram klukkan 19.00 á föstudagskvöldið en upphaflega var áætlað að hann myndi fara fram á morgun, sumardaginn fyrsta.

Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, sagði að FH-ingar hafi óskað eftir því að færa leikinn þar sem að handboltalið félagsins mætir Haukum í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildarinnar í Kaplakrika annað kvöld.

„Við fórum vel yfir þetta mál og það tók nokkuð langan tíma að finna lausn,“ sagði Birkir í samtali  við Vísi í dag. „En þetta varð niðurstaðan og leiktíminn var sameginleg ákvörðun FH og Breiðabliks.“

KR og Fram eigast svo við í meistarakeppni KSÍ á mánudagskvöldið en sá leikur skarast á við viðureign KR og Grindavíkur í lokaúrslitum Domino's-deildar karla í körfubolta.

„KR-ingar létu okkur vita af þessu í gær og ég veit ekki hvort við náum að bregðast við þessu. Við erum að skoða það mál,“ sagði Birkir.

Báðir knattspyrnuleikirnir fara fram á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Þess má geta að FH leiðir 1-0 í undanúrslitarimmu sinni gegn Haukum í Olísdeild karla eftir sigur á Ásvöllum í gær.

Þá er KR með 1-0 forystu gegn Grindavík í rimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta en annar leikur liðsins fer fram á föstudagskvöld. Vinni KR-ingar einnig þá geta þeir tryggt sér titilnn í DHL-höllinni á mánudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×