Viðskipti innlent

Nýtt upplýsingafyrirtæki býður upp á ódýrari þjónustu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Nýtt fyrirtæki, 1819, sem veitir upplýsingar um símanúmer fyrirtækja og einstaklinga hefur tekið til starfa. Vefsíða fyrirtækisins opnar formlega síðar í þessum mánuði og á sama tíma mun fyrirtækið byrja að svara í upplýsingasíma.

Nákvæm dagsetning hefur ekki verið ákveðin en að sögn Jóhanns Kristjánssonar, stjórnarmanns 1819, verður dagsetningin tilkynnt fljótlega.

Fyrirtækið mun koma til með að starfa í beinni samkeppni við Já.

„Samkvæmt því sem við erum búin að reikna þá er hægt að bjóða upp á þessa þjónustu allt að 62 prósent ódýrar en verið er að gera núna. Það er algjör óþarfi að borga svona mikið fyrir þessa þjónustu eins og nú þarf að gera,“ segir Jóhann.

Fyrirtæki og einstaklingar geta skráð sig á síðuna vilji þau að 1819 geti gefið upplýsingar um símanúmer þeirra. „Ef fólk vill fá lægra verð fyrir upplýsingaþjónustu þá er um að gera að það skrái sig hjá okkur."

Nú þegar er hægt að skrá upplýsingar á síðuna en Jóhann segist ekki vera kominn með nákvæmar tölur um hversu mörg númer hafi verið skráð enn sem komið er.

Kominn tími á samkeppni

„Notendurnir byggja upp vefinn, ef þeir vilja ódýrari þjónustu þá gera þeir það með því að styðja við ódýrari kostinn. Notendurnir stýra því hvernig þetta verður,“ segir Jóhann.

Einnig býður fyrirtækið upp á að senda sms á síðunni. Þjónustan verður ekki einskorðuð við ákveðin fyrirtæki og því getur hver sem er sent sms hvert sem er.

Jóhann segir að þetta snúist fyrst og fremst um að neytendur hafi val og ekki sé verið að okra á fólki. „Það er alveg kominn tími á samkeppni,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×