Lífið

Líður vel á Íslandi

Ása Ottesen skrifar
Heiða Rún Sigurðardóttir leikkona er nýlega flutt til Íslands eftir átta ára dvöl í London. Hún leikur rannsóknarlögreglukonu í sjónpvarpsþáttaröðinni Hraunið.
Heiða Rún Sigurðardóttir leikkona er nýlega flutt til Íslands eftir átta ára dvöl í London. Hún leikur rannsóknarlögreglukonu í sjónpvarpsþáttaröðinni Hraunið. Mynd/Börkur Sigþórsson
„Ég leik rannsóknarlögreglukonu utan af landi sem er nýbyrjuð í starfinu. Hún er mjög áhugasöm og metnaðarfull, en á sama tíma frekar fljót á sér,“ segir leikkonan Heiða Rún Sigurðardóttir sem fer með hlutverk í sjónvarpsþáttunum Hrauninu. Þáttaröðin er sjálfstætt framhald sjónvarpsþáttanna Hamarinn sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu árið 2009.

Hraunið er í leikstjórn Reynis Lyngdal og standa tökur nú yfir á Snæfellsnesi. Með önnur hlutverk fara Björn Hlynur Haraldsson, Atli Rafn Sigurðarson, María Ellingsen og Svandís Dóra Einarsdóttir.

Heiða Rún útskrifaðist úr leiklistarnámi frá Drama Center í London fyrir þremur árum og er hlutverkið í Hrauninu hennar fyrsta íslenska hlutverk. Áður hafði hún farið með hlutverk í kvikmyndinni One Day, sem skartaði Anne Hathaway í aðalhlutverki, og í sakamálaþáttunum Jo, þar sem hún lék dóttur leikarans Jean Reno.

Aðspurð viðurkennir hún að það sé skrítið að búa aftur á Íslandi eftir átta ára búsetu erlendis.

„Ég viðurkenni að það kom kvíði í mig þegar ég tók ákvörðunina um að flytja heim til Íslands. En það var eiginlega bara fyrsta vikan sem var skrítin, eftir það leið mér rosalega vel.“

Heiða Rún ætlar að dvelja hér á landi um nokkra hríð og er bjartsýn á framhaldið. „Miðað við hvað við erum fámenn þá finnst mér margt spennandi í boði. Ég veit að ég mun fara aftur til London, en það er draumur minn að geta hoppað á milli og starfað á báðum stöðum,“ segir Heiða Rún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×