Innlent

Vill endurmeta inngöngukröfur í Lögregluskólann

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, telur mikilvægt að endurmeta inngöngukröfur í Lögregluskólann. Mikilvægt sé að lögreglustéttin endurspegli samfélagið.

Sigríður segir lögreglustéttina skorta fjölbreytni og því þurfi að grípa til aðgerða. Meðal annars þarf að skoða hvernig hægt er að gera starfið meira aðlaðandi fyrir konur og innflytjendur.

„Það er mjög óheppilegt að konur séu aðeins 10% af lögreglustéttinni þegar konur eru 50% samfélagsins. Að sama skapi hef ég lengi verið talsmaður þess að við eigum að hafa fólk af fleiri þjóðarbrotum í lögreglunni," segir Sigríður. hún telur inngöngukröfur Lögregluskólans barn síns tíma.

„Það þarf að endurmeta þessar kröfur hvað varðar íslenskukunnáttu og fleira. Eins veltir maður því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að geta dregið áttatíu kílóa dúkku langa vegalengd. Það getur verið erfitt upp á líkamsbyggingu kvenna."

Á opnum fundi, sem fór fram á Hallveigarstöðum í dag, voru til umræðu niðurstöður nýlegrar skýrslu um stöðu kvenna innan lögreglunnar. Þar kom fram að um þriðjungur lögreglukvenna töldu sig hafa orðið fyrir kynferðislegu áreiti af hálfu karlkyns starfsfélaga, að konur hafi ekki aðgengi að efstu starfsstigum lögreglunnar, og að þær séu taldar óhæfari til lögreglustarfa en karlar.

Sigríður segir skýrsluna hafa opnað umræðuna og nú sé mikil endurskoðun í gangi. Lögreglan vinnur nú að því að skipa starfshóp og fagráð sem er ætlað verður að taka á þessum málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×