Innlent

Glimmerskarð í glysgjörnum Hafnarfirði

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Opnað er fyrir umsóknir í Skarðshlíð á laugardag.
Opnað er fyrir umsóknir í Skarðshlíð á laugardag.
Á laugardaginn verður hægt að sækjast eftir því að búa við nýja götu sem ber heitið Glimmerskarð í nýju hverfi í Skarðshlíð í Hafnarfirði.

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, segir að götuheitið Glimmerskarð hafi vakið mikla athygli.

„Við erum með á hreinu að allir eigi eftir að vilja eiga heima á Glimmerskarði, þetta verða örugglega lóðirnar sem fara fyrst,“ segir Steinunn.

Göturnar í nýja hverfinu eru nefndar eftir bergtegundum. Glimmer er bergtegund, nánar tiltekið flögur sem finnast í steinum og þaðan kemur nafnið.

„Við erum svo glysgjörn hér í Hafnarfirði. Hér í nágrenni við Glimmerskarð eru götur sem heita Glitvangur og Glitvellir,“ segir Steinunn.

Steinunn býður gestum og gangandi að koma á kynningu á lóðunum í Ásvallalaug á laugardaginn.

„Sigríður Klingenberg verður á svæðinu sem er þekkt fyrir glys og glimmer. Hún mun velta því fyrir sér með fólki hvar best er að velja lóð,“ segir Steinunn.

Nánari upplýsingar um hverfið og lóðirnar má finna á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×