Enski boltinn

Ísland gerði David Moyes að manni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
David Moyes, knattspyrnustjóri Manchester United, mun leiða leikmenn sína út á Wembley-leikvanginn í Lundúnum á sunnudaginn. Öll heimsbyggðin mun fylgjast með.

Á þessum nótum hefst umfjöllun Daily Mail um Moyes þar sem fjallað er um hvar ferill Moyes hafi hafist. Af öllum stöðum í heiminum hafi það verið á Íslandi.

Líkt og Vísir fjallaði um í vor æfði David Moyes um tíma með Tý í Vestmannaeyjum. Upphaflega ætlaði Skotinn að dvelja yfir sumarið 1978 í Eyjum en dvölin varð styttri þegar Moyes bauðst samningur hjá Celtic í Skotlandi.

„Fyrsta reynsla Moyes hjá alvöru liði var í Vestmannaeyjum, blautum og vindasömum fiskibæ undan suðurströnd Íslands. Þar eru lundarnir fleiri en íbúarnir fimm þúsund og eldfjall gnæfir yfir húsakynnum fólksins."

Fimmtán ára mætti Moyes til Vestmannaeyja en það var Ólafur Jónsson sem hýsti Moyes á meðan á dvöl hans hér stóð. Ólafur fór árlega með hóp ungra Eyjapeyja til Skotlands til æfinga þar sem hann kynntist föður Moyes, David eldri.

Nordicphotos/Getty
„Hann var leiðtogi á vellinum. Ég sá það strax þá. Hann var strákur en alltaf fremstur meðal jafningja. Hann var alltaf fyrstur," segir Ólafur sem ber Moyes afar vel söguna.

„Hann var hluti af fjölskyldunni," segir Ólafur sem skellir upp úr þegar ræðir um matarvenjur Skotans.

„Ég held að hann hafi ekki kunnað neitt sérstaklega vel við matinn enda var fiskur nánast í hvert mál," segir Ólafur. Moyes hafi þó verið kurteis og alltaf borðað það sem stóð til boða.

Viðtalið við Ólaf má sjá hér.

Leikur Manchester United og Wigan um Samfélagsskjöldinn á sunnudaginn hefst klukkan 12.45. Hann verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×