Handbolti

Valsmenn ráku Patrek í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson
Patrekur Jóhannesson Mynd/Stefán
Patrekur Jóhannesson er hættur sem þjálfari meistaraflokks karla hjá Val en Valsmenn birtu fréttatilkynningu inn á heimasíðu sinni í kvöld. Patrekur ætlaði að stýra Valsliðinu út tímabilið en taka svo við liði Hauka á næsta tímabili þegar Aron Kristjánsson fer í fullt starf sem landsliðsþjálfari.

„Stjórn handknattleiksdeildar Vals hefur tekið ákvörðun um að Patrekur Jóhannesson, þjálfari meistaraflokks karla, láti af störfum fyrir félagið. Þessi ákvörðun er tekin með hagsmuni liðsins og Vals að leiðarljósi," segir í frétt á heimasíðu Vals.

Valsmenn eru í næstneðsta sæti N1 deildar karla en gerðu 24-24 jafntefli í síðasta leik Patreks í gær. Valsliðið náði aðeins í tvö stig í síðustu sjö leikjum sínum undir stjórn Patreks.

Ólafur Stefánsson mun taka við þjálfun Valsliðsins í sumar en Heimir Ríkharðsson mun stýra liðinu til loka tímabilsins. „Framundan er mikilvægur tími fyrir lið meistaraflokks félagsins," segir í fréttatilkynningunni.

Patrekur er áfram starfandi landsliðsþjálfari Austurríkis og tekur síðan við Haukum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×