Viðskipti innlent

Vilja leggja bílanefndina niður

Ríkisendurskoðun telur að bílanefnd ríkisins, sem hefur eftirlit með bifreiða- og akstursmálum stofnana, sé óþörf og það beri að leggja hana niður. Kaup stofnana á bifreiðum eigi að vera samkvæmt rammasamningum, líkt og önnur innkaup þeirra á vöru og þjónustu.

Bílanefnd ríkisins hefur m.a. það hlutverk að taka afstöðu til beiðna ríkisstofnana um kaup eða rekstrarleigu á bifreiðum. Að fengnu samþykki nefndarinnar geta stofnanir snúið sér til Ríkiskaupa sem annast innkaup eða samninga um leigu fyrir þeirra hönd. Aksturssamningar stofnana við starfsmenn sína eru einnig háðir samþykki nefndarinnar. Þá skal nefndin framfylgja reglum um merkingar ríkisbifreiða og reglum um innkaup og endurnýjun á ráðherrabílum.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að nefndina skortir úrræði til að framfylgja því umsjónar- og eftirlitshlutverki sem henni er falið. Þannig hefur nefndin t.d. ekki skýrt umboð til að bregðast við ef stofnanir fara ekki að þeim reglum sem gilda í þessu efni. Þá er bent á að hlutverk hennar við eftirlit með hagkvæmni bílamála hjá ríkinu sé takmarkað enda meti nefndin ekki þörf stofnana fyrir bifreiðar.

Það er hægt að lesa meira um málið á vef Ríkisendurskoðunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×