Innlent

Auður Laxness er látin

Auður Laxness var eiginkona Halldórs.
Auður Laxness var eiginkona Halldórs.
Auður Sveinsdóttir Laxness, ekkja Nóbelsverðlaunaskáldsins Halldórs Laxness, er látin á níutugasta og fimmta aldursári. Hún fæddist á Eyrarbakka 30. júlí 1918 en ólst upp á Bárugötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún giftist Halldóri Laxness rithöfundi í desember 1945 og byggðu þau heimili sitt að Gljúfrasteini í Mosfellsdal þar sem þau bjuggu ásamt dætrum sínum Sigríði og Guðnýju.

Auður var handavinnukennari að mennt. Hún fékk snemma áhuga á félagsmálum og kvenréttindabaráttu, var meðal stofnenda kvennablaðsins Melkorku árið 1944, sat lengi í ritnefnd tímaritsins Hugur og hönd og skrifaði greinar um vefnað, prjón og fornar íslenskar listir í þessi rit. Auk þess vann hún að hannyrðum og hönnun meðal annars á flíkum úr íslenskri ull. Má í því sambandi geta þess að þekktustu mynstur sem rutt hafa sér til rúms á lopapeysum síðustu áratugi og margir telja ævaforn hannaði Auður fyrir hálfri öld. Hún var ekki einungis húsfreyja á Gljúfrasteini, eiginkona, móðir og amma heldur var hún um langt árabil ritari og nánasti samverkamaður Halldórs.

Óhætt er að segja að Auður hafi verið Halldóri einstök stoð og stytta fram til hinstu stundar hans. Samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldu Auðar dvaldi hún síðustu ár á dvalarheimilinu Grund í Reykjavík þar sem hún lést þann 29 október síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×