Erlent

Borðuðu síðast saman á Sushi Samba - Tom tekur til varna

Tom Cruise og Katie Holmes sáust síðast saman á íslenska veitingastaðnum Sushi Samba í miðborg Reykjavíkur þann 16. júní síðastliðinn. Þá voru þau með dóttur sína, Suri, með sér, en skömmu síðar átti Holmes eftir að sækja um skilnað, nokkuð sem virðist hafa komið stórleikaranum verulega á óvart.

Tom er við tökur hér á landi vegna kvikmyndarinnar Oblivion en fjölskylda hans kom til Íslands skömmu eftir að Tom kom hingað. Meðal annars sást til hjónanna leiða hvort annað í göngutúr í miðbænum.

Svo virðist sem þau hafi verið mjög hamingjusöm hér á landi, þannig ræðir fréttamiðillinn Nydailynews.com við sjónarvott sem snæddi á Sushi Samba á sama tíma og stjörnuparið.

„Þau fylgdust mikið með Suri sem virtist fá alla athyglina við borðið," er haft eftir sjónarvottinum. „Tom og Katie horfðu brosandi á hvort annað. Þau voru eins og hver önnur fjölskylda sem kemur hingað, það var nánast ómögulegt að hugsa sér að þau séu að skilja miðað við hvað þau virtust hamingjusöm þetta kvöld," segir sjónvarvotturinn.

Svo virðist sem Katie sjái fyrir sér ljótan skilnað. Hún hefur meðal annars sótt um skilnað í New York, sem er engin tilviljun, því dómarar þar í borg eru þekktir fyrir að dæma ekki sameiginlega forsjá yfir börnum sé skilnaðurinn harður. Tom hefur hinsvegar séð við þessu bragði og sjálfur sótt um skilnað í Kaliforníu. Það er einnig gert af klókindum þar sem dómara í ríkinu eru mun líklegri til þess að dæma sameiginlega forsjá.

Eins og fram hefur komið mun Katie vera mjög ósátt við þátttöku Toms í Vísindakirkjunni og þær fyrirætlanir hans að auka þátttöku Suri í þeim trúsöfnuði, sem þykir verulega umdeildur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×