Erlent

Háhyrningar stefna Sea World fyrir þrælahald

All sérkennilegt dómsmál er nú rekið fyrir dómstól í Flórída en sækjendurnir í því eru fimm háhyrningar sem eru í eigu skemmtigarðsins Sea World.

Það eru dýraverndunarsamtökin PETA sem reka dómsmálið fyrir hönd háhyrninganna. PETA vill meina að háhyrningarnir séu haldnir sem þrælar í Sea World og eigi rétt á sömu vernd gegn þrælahaldi og fólk hefur samkvæmt 13. grein bandarísku stjórnarskrárinnar. Þrælahaldið á háhyrningunum felist í því að þeir séu neyddir til að lifa í búrum og skemmta gestum Sea World á hverjum degi.

Jeffery Kerr lögmaður háhyrninganna segir að þetta sé í fyrsta sinn í sögunni að látið sé reyna á réttindi lifandi tilfinningavera og hvort leyfilegt sé að halda slíkar verur sem þræla þótt þær teljist ekki til mannkynsins.

Lögmenn Sea World segja að málsóknin öll sé þvæla og tímaeyðsla. Stjórnarskrá Bandaríkjanna hefjist á orðunum "Við fólkið" og í henni sé ekki gert ráð fyrir að þau orð nái yfir háhyrninga eða nokkra aðra dýrategund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×