Innlent

Auglýst eftir sakbitnum bankamönnum

„Þetta er mjög pólitískur listamaður sem vinnur verk sín út frá gagnrýni á markaðshagkerfið og kapítalisma," segir Soffía Karlsdóttir, Deildarstjóri kynningar og markaðsmála hjá Listasafni Reykjavíkur, en í dag mátti finna sérkennilega auglýsingu í Fréttablaðinu. Þar af lýst eftir sakbitnum starfsmönnum, eða fyrrverandi starfsmönnum, fjármálastofnanna. Starfið, sem er launað, er listgjörningur.

Það er heimsfrægi listmaðurinn Santiago Sierra sem auglýsir eftir fólkinu. Sierra hefur meðal annars sýnt verk sín í Tate safninu. Sá gjörningur vakti gríðarlega athygli. Sierra borgaði þá heimilislausum konum fyrir að stara á vegg. Konurnar fengu að launum næturgistingu á farfuglaheimili.

Annar gjörningur sem Sierra var ákaflega umdeildur fyrir var þegar hann greiddi vændiskonum heróín fyrir að fá að húðflúra línu á bakið á þeim.

„Hann hefur sett sig mjög mikið inn í íslenskar aðstæður," segir Soffía en Sierra mun opna sýningu sína þann 20. janúar næstkomandi, en þá eru nákvæmlega þrjú ár liðin frá einum fjörugasta deginum í búsáhaldabyltingunni, þegar Oslóar tréð var brennt. Sýning hans mun að snúast um hrunið.

Þegar Soffía er spurð hvers bankamennirnir sakbitnu megi vænta, segist hún ekki vita það. Sierra hefur hvorki upplýst hana né safnið um tilgang sinn né hversu há laun bankamennirnir fá fyrir starfið.

Aðspurð hvort fyrri verk Sierra fæli ekki frá, svarar hún: „Fólk er frjálst að taka þátt, eða ekki. Ef einhverjir telja sig falla undir skilgreiningu hans, þá borgar hann viðkomandi fyrir starfið. Og sumir bankamenn þurfa á aurnum að halda."

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um Sierra hér. Þá eru áhugasamir hvattir til þess að senda póst á listasafn@reykjavik.is. Og fyrir þá sem vilja skoða gjörning Sierra á Tate safninu þá er hægt að horfa á myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×