Körfubolti

Haukakonur Lengjubikarmeistarar í körfunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jence Rhoads
Jence Rhoads Mynd/Valli
Haukar unnu fyrsta titil vetrarins í körfuboltanum þegar kvennalið félagsins vann tveggja stiga sigur á Íslands- og bikarmeisturum Keflavíkur, 63-61, í úrslitaleik Lengjubikars kvenna sem fram fór í Grafarvoginum í dag.

Þetta er í þriðja sinn sem kvennalið Hauka vinnu fyrirtækjabikar KKÍ en liðið vann þessa keppni einnig árin 2005 og 2006.

Jence Rhoads átti frábæran leik með Haukum og skoraði 34 stig og tók 10 fráköst. Íris Sverrisdóttir kom henni næst með 11 stig.

Jaleesa Butler var með 19 stig og 19 fráköst í liði Keflavíkur, Birna Valgarðsdóttir skoraði 16 stig og hin unga Sara Rún Hinriksdóttir var með 11 stig.

Haukar komust í 6-2 og 11-6 í upphafi leiks en Keflavík breytti stöðunni í 18-13 og var síðan 18-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Keflavík var ennfremur 26-22 yfir þegar 6 mínútur voru eftir af öðrum leikhluta en Bjarni Magnússon, þjálfari Hauka, tók þá leikhlé. Haukar unnu síðustu sex mínútur hálfleiksins 10-2 og voru því fjórum stigum yfir í hálfleik, 32-28.

Haukarnir skoruðu síðan átta fyrstu stig seinni hálfleiksins og komust í 40-28 en Jence Rhoads var þá komin með 21 stig.

Keflavík náði að laga stöðuna í framhaldinu og Haukarnir voru fjórum stigum yfir, 49-45, fyrir lokaleikhlutann.

Haukar komust átta stigum yfir í upphafi fjórða leikhlutans, 55-47, en Keflavíkurkonur gáfust ekki upp og voru búnar að jafna leikinn þegar fjórar mínútur voru eftir. Haukarnir voru alltaf skrefinu á undan á æsispennandi lokamínútum og unnu að lokum tveggja stiga sigur.



Keflavík-Haukar 61-63 (18-16, 10-16, 17-17, 16-14)

Stig Keflavíkur: Jaleesa Butler 19 (19 fráköst/4 varin skot), Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 16, Sara Rún Hinriksdóttir 11, Helga Hallgrímsdóttir 6 (8 fráköst), Pálína Gunnlaugsdóttir 4 (6 stoðsendingar), Aníta Eva Viðarsdóttir 3, Hrund Jóhannsdóttir 2.

Stig Hauka: Jence Ann Rhoads 34 (10 fráköst/5 stolnir), Íris Sverrisdóttir 11, Margrét Rósa Hálfdánardótir 6, Guðrún Ósk Ámundardóttir 6, Gunnhildur Gunnarsdóttir 5 (5 stolnir), Sara Pálmadóttir 1 (10 fráköst).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×