Körfubolti

Nýi Grindavíkurkaninn reyndi fyrir sér hjá NFL-liði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
J'Nathan Bullock í búningi Jets.
J'Nathan Bullock í búningi Jets. Nordic Photos / Getty Images
Grindavík hefur gengið frá samningum við Bandaríkjamanninn J'Nathan Bullock um að leika með liðinu í Iceland Express-deild karla í vetur. Bullock er greinilega margt til lista lagt en hann hefur æft með NFL-liðinu New York Jets.

Grindavík hefur því fengið tvo Bandaríkjamenn til liðs við félagið en fyrir var búið að semja við Giordan Watson, leikstjórnanda. Bullock spilar sem kraftframherji.

Bullock keppti bæði í körfubolta og bandarískum ruðningi í framhaldsskóla en valdi að fara á körfuboltastyrk í Cleveland ríkisháskólann. Þar var hann stigahæsti leikmaður körfuboltaliðsins síðustu þrju árin sín en á lokaárinu skoraði hann að meðaltali fimmtán stig í leik og tók sjö fráköst.

Eftir að Bullock útskrifaðist úr háskóla var honum boðið til æfinga hjá NFL-liðinu New York Jets en hann fékk þó ekki samning hjá liðinu.

Grindavík reyndi að fá kappann fyrir tveimur árum síðan en þá valdi hann að fara til Ástralíu. Fram kemur á heimasíðu Grindavíkur að meira framboð sé á bandarískum leikmönnum nú en oft áður vegna verkfalls NBA-leikmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×