Innlent

Staðfest að gull finnst í jörðu á Austurlandi

Ástralskt fyrirtæki, sem óskað hefur eftir að leita að gulli á Austurlandi, gæti fengið leyfið innan tveggja mánaða, ef umsagnir verða jákvæðar.

Fyrirtækið, Platina Resources, vill leita á stórum hluta Austurlands næstu tvö ár, allt norður frá Vopnafirði og suður til Breiðdals. Svæði í grennd við Vopnafjörð, Breiðuvík og Breiðdal eru sérstaklega nefnd sem áhugaverð og vitnað til eldri rannsóknar, sem gerð var fyrir um fimmtán árum, og staðfesti að þar finnst gull í jörðu.

Þótt áherslan verði á gull telur fyrirtækið að austanlands kunni einnig að finnast aðrir málmar eins og kopar, blý, silfur og sink. Umsóknin fer nú til umsagnar í stjórnkerfinu og til landeigenda og ef ekki koma fram alvarlegar athugasemdir gæti rannsóknarleyfi fengist í júlímánuði, samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun.

Víðtækasta leit að gulli á Íslandi til þessa fór fram sumarið 1996 í Þormóðsdal í Mosfellsbæ á vegum Melmis, félags sem Kísiliðjan og Iðntæknistofnun stóðu að. Borkjarnar þaðan sýndu gullmagn í vinnanlegu magni í einstökum æðum en heildarmagnið á svæðinu var þó ekki talið nægjanlegt til að það svaraði kostnaði að setja upp vinnslunámu. Meginniðurstaðan úr Þormóðsdal var þó sú að staðfest var að gull finnst í kulnuðum jarðhitasvæðum hérlendis.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.