Viðskipti innlent

Salan aðeins svipur hjá sjón eftir gosið

Framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar segir ærið verk fram undan að fá ferðamenn aftur til landsins.
Framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar segir ærið verk fram undan að fá ferðamenn aftur til landsins.
Ráðast þarf í miklar aðgerðir til að fá erlenda ferðamenn aftur til landsins. Þetta er mat framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, Ernu Hauksdóttur.

Fréttir af eldgosinu í Eyjafjallajökli hafa borist um allan heim og Erna segist hafa fregnir af því að ferðaþjónustufyrirtæki víða um land hafi fengið fjölda fyrirspurna frá fólki sem hugðist koma til landsins í sumar. Einnig að töluvert sé um afbókanir meðal erlendra ferðamanna.

„Við höfum fengið upplýsingar frá ferðaþjónustufyrirtækjum sem segja að mikið sé um afbókanir. Það sem er hins vegar mun alvarlegri tíðindi er að hrun er í nýjum bókunum. Þessi tími, og næstu vikur fram á sumar, er aðalbókunartími ársins í ferðamannaiðnaðinum þannig að þetta er gríðarlega alvarlegt mál," segir Erna.

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, sagði stöðuna slæma í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöld. Hann segir sölu á flugferðum aðeins vera um fjórðung af því sem var fyrir gos og stuðla þurfi að mikilli landkynningu til að ekki verði algert hrun í ferðaþjónustunni.

Matthías segir jafnframt að stefnt hafi í að komandi sumar yrði mesta ferðamannasumar í manna minnum. Miðað við söluna verði það hins vegar aðeins svipur hjá sjón.

Erna segir mikilvægt að allir leggist á eitt við að koma réttum upplýsingum á framfæri til að ferðaþjónustan falli ekki á tíma. Mikil bjartsýni ríkti í ferðageiranum fyrir nokkrum vikum þegar allt stefndi í að ferðamenn myndu streyma til landsins.

„Það þurfa allir að taka til hendinni og hjálpast að við þetta verkefni sem fram undan er," segir Erna.

juliam@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×