Innlent

400 fóru fótgangandi að gosinu í morgun

Ekið yfir ána yfir í Fljótsdal í dag. Mikil umferð var á svæðinu. Mynd / Egill.
Ekið yfir ána yfir í Fljótsdal í dag. Mikil umferð var á svæðinu. Mynd / Egill.

Lögreglan á Hvolsvelli telur að um 400 manns hafi lagt af stað upp Fimmvörðuhálsinn fótgangandi í morgun. Um er að ræða marga hópa ásamt leiðsögumönnum.

Gríðarleg umferð er að Skógum þar sem fjölmargir göngumenn leggja af stað til þess að ganga upp á Fimmvörðuháls. Umferðin er svo mikil að óhætt er að tala um umferðaröngþveiti.

Þá eru fjölmargir á leiðinni í Fljótsdal til þess að skoða gosið. Aka þarf malarveg og yfir á til þess að komast leiðar sinnar en lögreglan fylgist vel með og gengur furðuvel að sögn fréttamanns Stöðvar 2 sem var á vettvangi.

Erlend kona sem hugðist horfa á gosið frá Emstrum í Fljótsdal varð fyrir miklum vonbrigðum þar sem lítið sást um hádegisbilið vegna sólar þar sem hún skein úr suðurátt.

Þá sögðu framreiðslustúlkur á veitingastað á Hvolsvelli að þarna væri meiri umferð ferðmanna heldur en á góðum degi að sumri til.

Lögreglan segir umferðina hafa gengið mjög vel. Eitthvað hafi þó verið um ökumenn sem virtu ekki lokanir á fjallavegum. Vill lögreglan benda almenningi að virða takmarkanir, þær eru ekki settar af ástæðulausu, enda eru eldgos stórhættuleg fari menn ekki gætilega.

Þá vonaðist lögreglan til þess að ferðamenn sem ganga upp Fimmvörðuhálsinn séu vel búnir. Lögreglan áréttar að það er mjög kalt uppi á Fimmvörðuhálsi og þeir sem eru illa búnir eða reynslulausir eiga ekkert erindi fótgangandi að gosinu.

Um tíu tíma göngu er að ræða auk þess sem það er hvöss norðanátt en göngumenn ganga í norður upp að gosstöðinni og eru því með vindinn í fanginu alla leiðina að gosinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×