Viðskipti innlent

Gagnrýna ummæli um Ölgerðina

Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Samtök iðnaðarins segja með ólíkindum hvernig yfirmaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra dylgjar um rekstur og ákvarðanir Ölgerðarinnar og stjórnenda þess. Samtök iðnaðarins ætlast til þess að ríkisskattstjóri sjái til þess að slíkt endurtaki sig ekki.

Ölgerðin sagði upp hátt í 40 starfsmönnum í þessari viku. Að sögn forstjóra fyrirtækisins er verið að grípa til ráðstafana vegna vænts samdráttar í eftirspurn á næsta ári, meðal annars vegna hækkunar skatta og vörugjalds. Aðalsteinn Hákonarson, forstöðumaður eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að vandi Ölgerðarinnar sé væntanlega meiri af völdum skuldsettrar yfirtöku en af völdum skattanna.

„Hver trúir því eftir þetta að eftirlitsdeild ríkisskattstjóra fari hlutlaust með málefni Ölgerðarinnar undir stjórn forstöðumannsins sem vænir stjórnendur beinlínis um að fara með lygimál,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri SI, í tilkynningu frá samtökunum.

Samtök iðnaðarins hafa gagnrýnt skattastefnu stjórnvalda er lýtur að skattlagningu matvæla, hækkun virðisaukaskatt á tilteknum matvælum og álagningu vörugjalda. „Samtök iðnaðarins hafa lagt fram ítarlegar tillögur um aðrar aðferðir við skattlagningu matvæla. Samtökin hafa einnig varað sterklega við afleiðingum þessarar stefnu,“ segir framkvæmdastjórinn.

Jón Steindór segir Ölgerðina vera dæmi um fyrirtæki sem þessi skattlagning bitnar þungt á. „Það segir til sín í sölutölum og enn ætlar ríkisstjórnin að bæta í og leggja enn meiri skatta á þessar vörur. Ölgerðin hefur því neyðst til að bregðast við með þungbærum aðgerðum, m.a. með uppsögnum starfsfólks.“ Þetta sé í fullu samræmi við það sem Samtök iðnaðarins hafa varað við og óttast að myndi gerast.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×