Viðskipti innlent

Milljarðar í vasa Björgólfsfeðga

Félag í eigu þeirra Björgólfs Guðmundssonar og sonar hans og nafna fékk rúma 1,7 milljarða í arð frá Straumi-Burðarási í formi hlutabréfa í gær. Markaðurinn/E.Ól.
Félag í eigu þeirra Björgólfs Guðmundssonar og sonar hans og nafna fékk rúma 1,7 milljarða í arð frá Straumi-Burðarási í formi hlutabréfa í gær. Markaðurinn/E.Ól.

Samson Global Holdings, félag í eigu þeirra feðga Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thor Björgólfssonar, fékk í gær greidda tæpa 146,4 milljón hluti í Straumi-Burðarási í arð vegna afkomunnar á síðasta ári. Markaðsverðmæti hlutanna miðað við gengi bréfa í Straumi í gær nam rúmum 1,7 milljörðum íslenskra króna.

Þetta er í samræmi við ákvörðun frá aðalfundi bankans um miðjan síðasta mánuð þegar ákveðið var að greiða út 48,9 milljónir evra í arð fyrir síðasta ár. Það jafngildir sex milljörðum króna miðað við gengi evru í gær.

Samson er stærsti hluthafi Straums með rúm 32,8 prósenta hlut og fengu smærri hluthafar því eðlilega minna af þeim tæpu 430 milljón hlutum sem bankinn greiddi út í formi arðs í gær.

Samanlagt verðmæti bréfa feðganna í Straumi nemur tæpum 41,6 milljörðum króna. Gengið stóð í 11,7 krónum um tvöleytið í gær. Það fór hæst í 23,25 krónur á hlut 19. júlí síðastliðinn. Svipaða sögu var að segja um gengi annarra félaga sem skráð eru í Kauphöll Íslands. - jab





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×