Innlent

Ágúst Ólafur: Hótun Jóns Ásgeirs með ólíkindum

Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar Alþingis.
Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar Alþingis.

„Mér finnst það afar sérkennilegt ef menn telja sig geta hótað þingmönnum með þessum hætti, að þeir verði einfaldlega kærðir ef þeir spyrji ákveðinna spurninga," segir Ágúst Ólafur Ágústsson, formaður viðskiptanefndar Alþingis.

Í bréfi sem lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sendi Ágústi í kvöld er farið fram á að hann kalli forsvarsmenn ríkisbankanna þriggja ekki á sinn fund á föstudag. Greint var frá því í fréttum RÚV í gær að Ágúst hefði boðað til þessa fundar, meðal annars til að krefja forsvarsmenn bankanna svara við því hvort einhver banki hefði komið að fjármögnun vegna kaupa Jóns Ásgeirs á fjölmiðlahluta 365 í ljósi þróunar á fjölmiðlamarkaði.

Ágúst Ólafur segist ekki ætla að verða við þessari kröfu Jóns Ásgeirs enda lúti málið að áhyggjum almennings og þingheims af því hvort hér á landi sé að myndast einokun á fjölmiðlamarkaði og hvort ríkisbankarnir hafi átt þátt í því. „En síðan er það bankanna að meta hvort bankaleynd sé fyrir hendi á þessum upplýsingum eða ekki. Ég er ekki að biðja menn um að brjóta lög en ég er að sinna mínu starfi sem alþingismaður," segir Ágúst. Hann segir að þingmenn hafi oft spurt spurninga og fengið neitun. Það sé ekkert nýtt að þingmenn fái ekki upplýsingar um efni sem leynd hvílir yfir.

Ágúst Ólafur segir að hótun Jóns Ásgeirs sé með miklum ólíkindum og dregur í efa að hún eigi sér nokkuð fordæmi. „Og það má spyrja sig hvort að hann ætli að hóta fjölmiðlum kæru ef þeir spyrja spurninga," segir Ágúst.

Rétt er að halda því til haga að eftir að fyrstu fréttir bárust af kaupum Jóns Ásgeirs á fjölmiðlahluta 365 hefur hann greint frá því að öllum hluthöfum í 365 yrði boðið að gerast aðilar að nýja félaginu, sem keypti fjölmiðlahlutann.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×